Ekki sitja og bíða og vona
Höfundur er Sveinn Þorgeirsson, aðjúnkt við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík
Starf íþróttakennara er í senn fjölbreytt, krefjandi og spennandi. Hver dagur hefur sínar áskoranir og sjarma, enda byggist kennslan á hæfni í mannlegum samskiptum við börn og ungt fólk í mótun. Í skólakerfinu fáum við einstakt tækifæri til að stíga inn sem jákvæðar fyrirmyndir varðandi heilsu og hreysti frá unga aldri. Á þeim tíma má stuðla að því að einstaklingar móti sér jákvætt viðhorf gagnvart heilsu og hreyfingu fyrir lífstíð.
Margir sem lesa þennan pistil eiga eflaust áhugamál sem tengist hreyfingu. Þeir geta þá hugsað til þess hvort þeir hafi þurft mikla hvatningu í hvert skipti til að ganga á fjöll, eða fara 18 holur í golfi? Sennilega ekki, – við gerum þetta vegna þess að athæfið í sjálfu sér gefur okkur svo mikla ánægju. Það er ómögulegt að meta til fjár þau jákvæðu heilsufarslegu áhrif sem hljótast af reglubundinni hreyfingu sem við getum fengið í gegnum áhugamál okkar. Áhrif sem við tengjum alla jafna við hjarta og vöðva en eru ekki síður mikilvæg fyrir heilastarfsemi og taugakerfið okkar. Rannsóknir sýna okkur skýrt þessi tengsl, enda ekki að ástæðulausu að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) leggur til klukkustund af hreyfingu á dag fyrir börn og hálftíma fyrir fullorðna og eldra fólk.
Góðir íþróttakennarar leika lykilhlutverk í því að kynna möguleikana á þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi, aðstöðu til heilsuræktar og útivistar í nærumhverfinu fyrir nemendum. Hver veit hversu mörgu íþróttafólki hefur verið „ýtt“ inn á réttar brautir af kennara með þekkingu og innsæi sem kemur auga á hæfileika í leynum? „Heyrðu vinur, þetta var rosalegt stökk hjá þér, – hefur þú prófað frjálsar íþróttir?“. Það er nefnilega svo margt sem vinnst með því að koma börnum af stað í hreyfingu og kveikja áhuga því meiri fjölbreytt hreyfing getur af sér meiri hreyfifærni og betra líkamlegt ástand, sem aftur leiðir til meiri hreyfingar. Þannig getum við beint unga fólkinu okkar inn á brautir þar sem hreyfing er sjálfsagður þáttur af heilbrigðum lífsstíl til framtíðar.
Hugsaðu þér alla hæfnina sem kennarar læra í námi og í starfi. Fyrir utan að vera sérfræðingar í sínum fögum þurfa þeir að vera einstaklega skipulagðir, sanngjarnir og hvetjandi. Öðruvísi gengur kennslan einfaldlega ekki upp. Íþróttafræðingar með meistaragráðu í kennslufræði eru mjög eftirsóttir starfskraftar bæði í kennslu og þjálfun enda byggja þeir á frábærum grunni þekkingar á líkamanum og hreyfingum og þeim aðferðum sem best henta til kennslu hverju sinni.
Ég vil hvetja þig til að kynna þér rækilega kosti þess að læra íþróttafræði og taka kennsluréttindi til að gerast íþróttakennari.
Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum.