Komdu að kenna er vettvangur til að vekja athygli á störfum kennara á öllum skólastigum, veita innsýn í störf þeirra og hvetja fólk til að fara í kennaranám. Kennó – félag kennaranema við Háskóla Íslands hratt verkefninu af stað með það að meginmarkmiði að hvetja til jákvæðrar umræðu um störf kennara.

Verkefnið hófst síðla árs 2016 þegar framleidd voru stutt myndbönd þar sem kennaranemar og starfandi leik- og grunnskólakennarar voru kynntir til leiks. Verkefnið hefur fengið frábærar viðtökur og í dag er Komdu að kenna sameiginleg regnhlíf allra háskóla sem bjóða upp á kennaranám.

Komdu og vertu með!
Komdu og kveiktu neista!
Komdu að kenna!

 Vissir þú að

  • 5. árið í kennaranámi getur verið launað starfsnám?
  • allir sem ljúka meistaragráðu fá 800.000 króna styrk?
  • ný lög gefa kennurum heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla?
  • kennaranemar í meistaranámi geta valið á milli M.Ed. (30e rannsóknarritgerð) og MT (eingöngu námskeið)?

 Vissir þú að árið…

  • 2019 sóttu 45% fleiri umsækjendur um grunnskólakennaranám?
  • 2020 fjölgaði umsóknum í meistaranám í leikskólakennarafræði um 118% og um 85% í grunnskólakennaranám í HÍ?
  • 2019 fjölgaði umsóknum í listkennsludeild LHÍ um 122% milli ára og árið 2020 voru karlkyns umsækjendur nífalt fleiri en árið áður?
  • árið 2019 fjölgaði karlkyns umsækjendum í HÍ um grunnskólakennaranám um 92% og í leikskólakennaranám um 188%, milli ára?

VILT ÞÚ VERÐA KENNARI?

Gæði skólastarfs og menntun barna er undirstaða velferðar hverrar þjóðar. Þar eru kennarar í lykilhlutverki. Fjórir háskólar bjóða upp á kennaranám og margar leiðir eru færar til að verða kennari í leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla eða listaskóla.

Kennaranemar velja sérhæfingu í námi sínu en halda svo í raun áfram að læra alla starfsævina. Fá störf bjóða upp á jafn fjölbreytta starfsþróun og teymisvinnu, á jafn líflegum og fjölmennum vinnustöðum.

Kennaranemar læra um nám og þroska, uppeldi og heimspeki, sjálfbærni og listir, félagsfræði og vísindi, bókmenntir, hreyfingu og leikræna tjáningu, úti sem inni. Svo fátt eitt sé nefnt!

Lokaár kennaranáms getur verið launað starfsnám

Vettvangsnám er stór hluti kennaranáms og á lokaárinu geta kennaranemar verið í launuðu starfsnámi í skólum, séu störf í boði. Ný lög um kennaranám fjölga tækifærum kennara til muna því þeir fá eitt leyfisbréf með heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þá geta kennaranemar í meistaranámi valið um að skrifa lokaritgerð eða dýpka sig í tilteknum viðfangsefnum með námskeiðum. Allir sem ljúka meistaragráðu fá hvatningarstyrk að upphæð 800.000 króna.