• Hvernig verð ég kennari?

Kennaranám eftir námsbrautum

Leikskólakennari

Viltu vinna með ofurhetjum á hverjum degi? Leikskólakennarar skapa vettvang fyrir börn til að blómstra á fyrsta skólastiginu. Ertu að leika þér allan daginn? Já, svo sannarlega! En ertu að vinna krefjandi starf sem hefur jákvæð áhrif á lífsgæði barna og uppvöxt? Svo sannarlega líka! Leikskólakennarastarfið er fyrir konur og karla og allt þar á milli sem dreymir um að skipta máli og móta framtíðina.

Hvernig verð ég leikskólakennari?

Leikskólakennarafræði er fimm ára nám en á lokaárinu geta kennaranemar verið í 50% launuðu starfsnámi. Ný lög um kennaranám fjölga tækifærum kennara til muna því þeir fá eitt leyfisbréf með heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í meistarnámi velja nemendur á milli þess að skrifa rannsóknarritgerð (M.Ed.) eða dýpka sig með námskeiðum í tilteknum viðfangsefnum og útskrifast þá með MT-gráðu. Þá eru hvatningarstyrkir að upphæð allt að 800.000 krónum í boði frá stjórnvöldum til allra sem klára 120 eininga meistaragráðu í leikskólakennarafræði, bæði þeirra sem velja M.Ed. og MT.

Ertu með BA eða BS gráðu og langar að verða leikskólakennari?

Ef þú hefur lokið bakkalárprófi í námi sem tengist uppeldisfræði eða námssviðum leikskólans geturðu farið í Menntunarfræði leikskóla. Það er meistaranám og veitir leyfisbréf til að starfa í leikskóla, sem og öðrum skólastigum. BA eða BS gráðan getur verið á sviði sálfræði, í listum, íslensku, heimspeki eða náttúruvísindum, svo dæmi sé nefnd.

Í LHÍ geta meistaranemendur í 60e diplómu í listkennslufræðum, 120e listkennslufræðum eða 120e kennslufræðum sérhæft sig í leikskólakennslufræðum innan sinnar námsleiðar. Námið veitir leyfisbréf til að starfa í leikskóla, sem og öðrum skólastigum. 

 • Markmið

  Að leikskólakennaranemar öðlist skilning á menntunarhlutverki leikskóla og hinum frjálsa leik sem náms- og þroskaleið. Nemendur fræðast um kenningar um uppeldi og menntun ungra barna og leggja grunn að starfi sínu sem framtíðarkennarar – og leiðtogar í leikskólastarfi. Í náminu er lögð áhersla á réttindi barna og mikilvægi þess að rödd þeirra og sjónarmið heyrist á vettvangi leikskólans. Leikskólakennaranámið snertir á jafn ólíkum þáttum og vísindum og listum, hreyfingu og tjáningu, skapandi hugsun og heimspekilegri samræðu, upplýsingatækni og fjölmenningu – svo fátt eitt sé nefnt!

 • Viðfangsefni

  Hinn frjálsi leikur sem námsleið, þróun og nýsköpun í leikskólastarfi, forysta, mat á leikskólastarfi, grunnþættir og gildi, menntunarfræði, lýðræði, listir, sjálfbærni og sköpun, leikskóli án aðgreiningar og upplýsingatækni.

Grunnskólakennari

Viltu kveikja neista á hverjum degi? Viltu hafa áhrif á komandi kynslóðir og vinna starf sem er aldrei eins frá degi til dags? Á Íslandi eru börn í grunnskóla í heilan áratug og það eru sannkölluð mótunarár. Vilt þú eiga þátt í að skapa öfluga einstaklinga, vinna í teymi á fjörugum vinnustöðum og finna hvern dag að starf þitt skiptir máli? Aflaðu þér upplýsinga um nám í grunnskólakennslu!

Hvernig verð ég grunnskólakennari?

Grunnskólakennaranám er fimm ára nám en á lokaárinu geta kennaranemar verið í 50% launuðu starfsnámi, séu þeir með starf í skóla. Ný lög um kennaranám fjölga tækifærum kennara til muna því þeir fá eitt leyfisbréf með heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í meistaranáminu velja nemendur á milli þess að skrifa rannsóknarritgerð (M.Ed.) eða dýpka sig með námskeiðum í tilteknum viðfangsefnum og útskrifast þá með MT-gráðu. Þeir kennaranemar sem ljúka 120e meistaranámi geta sótt um hvatningarstyrk frá stjórnvöldum, allt að 800.000 krónur, óháð því hvort þeir velja M.Ed. eða MT.

Ertu með BA eða BS gráðu og langar að kenna í grunnskóla?

Ef þú hefur lokið bakkalárprófi í námi sem tengist kennslugrein í grunnskóla, þá er þetta leiðin fyrir þig. Greinin þín gæti verið á sviði uppeldis- og menntunarfræði, sálfræði eða faggrein sem tengist viðfangsefnum grunnskólans, t.d. í listgrein, sögu, samfélagsfræði, stærðfræði eða náttúruvísindum. Meistaranámið er 120 einingar og veitir ýmist M.Ed., MA, M.Art.Ed eða MT gráðu.

Viltu nota aðferðir lista í kennslu?

Ef þú hefur bakkalárgráðu og vilt nota aðferðir lista í kennslu þá býður LHÍ upp á meistaranám í kennslufræðum.

 • Markmið

  Að undirbúa kennaranema fyrir kennslu í grunnskólum, samþættingu námsgreina og skapandi leiðir og lausnir í skóla margbreytileikans. Samstarf heimila og skóla og þátttaka í teymisvinnu og þróunarstarfi er áhersluþáttur og í náminu byggir kennaraneminn upp þekkingu á fjölbreyttum náms- og kennsluaðferðum og hugmyndafræðilegum stefnum og straumum um félagsfræði og heimspeki náms og menntunar. Áhersla er lögð á að hver kennaranemi geti mótað námið eftir áhugasviði sínu og valið sér leiðir til sérhæfingar.

 • Viðfangsefni

  Allir grunnskólakennaranemar læra ákveðinn grunn í kjarnafögum og kennslu- og menntunarfræði en sérhæfa sig svo eftir því sem líður á námið. Í fimm ára kennaranámi geta nemendur valið að sérhæfa sig í t.d. kennslu yngri barna eða í faggreinakennslu með sérhæfingu í völdum námsgreinum grunnskólans á borð við stærðfræði, upplýsingatækni, samfélagsgreinum, íslensku eða list- og verkgreinum.

Framhaldsskólakennari

Viltu vinna með ungu fólki sem er að taka skrefið inn í fullorðinsárin? Í framhaldsskólum er efniviðurinn ungmenni á einu skemmtilegasta tímabili ævinnar. Í framhaldsskóla gefast endalaus tækifæri til að kafa djúpt með nemendum og uppgötva heim tungumála, raungreina, hugvísinda, list- og verkgreina eða annars áhugasviðs þíns. Framhaldsskólanemar eru upplýstir og klárir og spyrja oft erfiðra spurninga, ef þú ert týpan sem elskar það ertu á réttum stað!

Hvernig verð ég framhaldsskólakennari?

Framhaldsskólakennaranám er sérstaklega skipulagt fyrir þá sem hafa þegar lokið bakkalárgráðu og vilja byggja ofan á hana þekkingu í kennslu- og menntunarfræði, oft nefnt kennslufræði faggreinarinnar. Að námi loknu getur þú sótt um leyfisbréf og leyfisbréfið veitir samkvæmt glænýjum lögum um kennaranám heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Ef þú ert með bakkalárgráðu geturðu einnig sótt meistaranám í listkennslu- eða kennslufræðum í listkennsludeild LHÍ. Stjórnvöld bjóða hvatningarstyrk fyrir þá ljúka meistaranámi til framhaldsskólakennslu, sjá nánari upplýsingar hér.

Ertu meistari í iðngrein?

Það er einnig í boði viðbótardiplóma til kennsluréttinda fyrir þá sem lokið hafa meistaraprófi í iðngrein sem kennd er í framhaldsskólum. Hvatningarstyrkir stjórnvalda ná einnig til þín!

 • Markmið

  Að búa nemendur, sem þegar hafa lokið gráðu í faggrein, undir það að miðla sinni sérfræðiþekkingu til framhaldsskólanema. Í náminu er faggreinaþekking nemandans dýpkuð, ásamt því að þjálfa nemandann í fjölbreyttum kennsluháttum, menntunarfræði og ýmsum tólum sem nýtast nemendum í kennslu.

 • Viðfangsefni

  Dýpkun á faggreinaþekkingu kennaranemans og kennslufræði greinarinnar, vettvangskennsla og ýmis námskeið sem dýpka skilning á félagsfræði og heimspeki menntunar, umhverfi, lífi og tilveru ungmenna.

Listgreinakennari

Viltu virkja sköpunarkraftinn í börnum og ungmennum? Viltu byggja ofan á listgrein þína og öðlast hæfni til að miðla henni í kennslu eða viltu fara í fimm ára heildstætt kennaranám með list- og verkgreinar sem kjörsvið? Hvað sem þú kýst – leiðirnar eru margar og ólíkar svo þú finnur örugglega eitthvað við þitt hæfi.

Hvernig verð ég listgreinakennari?

Háskóli Íslands býður upp á fimm ára nám í listgreinakennslu sem lýkur með M.Ed. eða MT gráðu, sem veitir leyfisbréf. Ný lög um kennaranám fjölga tækifærum kennara til muna því þeir fá eitt leyfisbréf með heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í meistaranámi geta nemendur valið á milli þess að skrifa rannsóknarritgerð (M.Ed.) eða dýpka sig með námskeiðum í tilteknum viðfangsefnum og útskrifast þá með MT-gráðu. Stjórnvöld veita hvatningarstyrki allt að 800.000 krónur, til allra kennaranema í 120e meistaranámi, þeirra sem velja M.Ed. og MT. Þeir sem eru í 60e meistaranámi geta sótt um allt að 400.000 króna hvatningarstyrk.

Ertu komin/kominn/komið með bakkalárgráðu í listgrein?

Þá getur þú farið í Háskóla Íslands eða Listaháskóla Íslands í meistaranám. Listaháskóli Íslands býður upp á diplómanám og meistaranám í listgreinakennslu. Náminu lýkur með MA eða M.Art.Ed gráðu.

 • Markmið

  Nám í listkennslu miðar að því að mennta listafólk til kennslu ásamt því að efla með því færni og fræðilegan grunn til að miðla þekkingu sinni á ólíkum vettvangi.

 • Viðfangsefni

  Námið er fjölbreytt og byggir á námskeiðum í kennslu-, uppeldis- og sálarfræði, heimspeki og félagsfræði, samhliða þjálfun í kennslu og miðlun listgreina og verkefna á vettvangi bæði innan skólakerfisins og utan þess.

Íþróttakennari

Ertu með heilsu, þjálfun og íþróttir á heilanum? Ef þú ert rétta manneskjan til að hvetja börn og ungmenni til að huga að heilsunni, hreyfa sig og efla sál og líkama ættir þú að skoða íþróttakennaranám.

Hvernig verð ég íþróttakennari?

BS-nám í íþrótta- og heilsufræði er fræðilegt, verklegt og starfstengt 180 eininga nám. Þeir sem vilja verða íþróttakennarar geta sótt um meistaranám í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.

M.Ed.-nám eða MT-nám í íþrótta- og heilsufræði (HÍ) og Heilsuþjálfun og kennslu (HR) er ætlað þeim sem stefna að því að starfa við íþróttakennslu. Námið veitir leyfisbréf með heimild til að starfa sem kennari á öllum skólastigum. Þeir sem ljúka 120 e kennaranámi á meistaranámi geta sótt um hvatningarstyrk stjórnvalda allt að 800.000 krónur.

 • Markmið

  Í náminu er fjallað um íþrótta- og kennslufræði með áherslu á heilsuþjálfun. Lögð er áhersla á hvernig auka megi lífsgæði með skipulagðri hreyfingu fyrir einstaklinga á öllum aldri og á mismunandi getustigum.

 • Viðfangsefni

  Líffæra- og lífeðlisfræði, þjálfunarlífeðlisfræði, líkams-, heilsuræktar- og íþróttaþjálfun, hreyfingafræði, næringarfræði, heilsufræði, félagsfræði, kennslufræði, sálfræði, íþróttasálfræði, útivist og ýmsar íþróttagreinar.

Kennaranám eftir skólum

Háskóli Íslands

Kennaranám veitir traustan undirbúning fyrir lifandi starf sem sífellt býður upp á ný og mikilvæg viðfangsefni. Kennaranemar öðlast þekkingu á námi og kennslu og fá tækifæri til að sérhæfa sig á ólíkum sviðum eftir áhuga og ástríðu þeirra. Kennaranám hefur tekið breytingum síðustu árin, þær helstu eru þessar:

– Á 5. ári geta kennaranemar verið í launuðu starfsnámi, starfi þeir í skóla.
– Við útskrift hafa kennarar heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla
– Í meistaranámi geta kennaranemar valið milli þess að skrifa rannsóknarritgerð (M.Ed.) eða dýpka sig með námskeiðum í tilteknu viðfangsefni sem þeir hafa ástríðu fyrir (MT).

Upplýsingar um hvatningarstyrki stjórnvalda til kennaranema sem ljúka meistaranámi.

Umsóknarfrestur um hvatningarstyrkina er til 29. júní.

Námsleiðir

Leikskólakennaranám
Grunnskólakennaranám
Framhaldsskólakennaranám
Íþróttakennaranám
Sérkennslufræði og skóli margbreytileikans (aðeins á meistarastigi)
Menntunarfræði, tveggja ára nám til kennsluréttinda fyrir þá sem þegar hafa BA gráðu eða BS gráðu í faggrein sem tengist námssviðum leikskóla eða faggreinum grunnskóla.

Lengd námsins

Grunnnám á bakkalárstigi er 180 einingar og tekur að jafnaði þrjú ár.
MT og M.Ed.-nám er 120 einingar og tekur að jafnaði tvö ár.

Gráða

Kennaranám er fimm ára nám og nemendur ljúka með MT gráðu eða M.Ed. gráðu. Munurinn er sá að í MT leiðinni skrifa nemendur ekki rannsóknarritgerð á lokaári. Báðar gráður veita leyfisbréf með heimild til kennslu á öllum skólastigum, en hver og einn kennaranemi sérhæfir sig í ákveðnu skólastigi eða faggrein.

Unnt er að taka samfellt fimm ára kennaranám á Menntavísindasviði eða ljúka fyrst bakkalárprófi (BA eða BS gráðu) og bæta svo við sig tveggja ára námi í kennslu- og menntunarfræði.

 • Umsóknarfrestur

  Frestur til að sækja um meistaranám er til 15. apríl 2022.

  Frestur til að sækja um grunnnám er til 5. júní 2022.

  Fyrir starfandi kennara sem vilja bæta við sig viðbótardiplómu er einnig frestur til 5. júní.

 • Heimilisfang

  MENNTAVÍSINDASVIÐ HÍ

  Stakkahlíð – 105 Reykjavík

  Opið frá kl. 8.15 -15.00 alla virka daga

  Sími: 525 5950

  [email protected]

Listaháskóli Íslands

Nám í listkennsludeild LHÍ er fjölbreytt og byggir á námskeiðum í kennslu-, uppeldis- og sálarfræði, heimspeki og félagsfræði, samhliða þjálfun í kennslu og miðlun listgreina og verkefna á vettvangi bæði innan skólakerfisins og utan þess. Markmiðið er að bjóða nám þar sem hópur fólks úr ólíkum fræðigreinum vinnur í þverfaglegu samtali að þróun kennslu með áherslu á aðferðir lista með sem víðtækustum samfélagslegum og hugmyndafræðilegum skírskotunum.  

Áhersla er lögð á að nemendur öðlist skilning og þekkingu á starfi kennarans, bæði fræðilega og á vettvangi. Þeir geti skipulagt nám og námsþætti út frá gildandi námskrám og valið námsgögn, náms- og matsaðferðir við hæfi. Kennsla og miðlun eru einnig skoðuð í víðara samhengi og nemendur hvattir til að setja fram eigin sýn og hugmyndir um nám og námsframboð í samfélaginu. Með stöðugu samtali og samstarfi á milli greina er opnað fyrir framþróun og nýja möguleika í kennslu. Námið er nemendamiðað og lýkur með meistaragráðu

Lestu meira um hvatningarstyrki stjórnvalda til kennaranema.

Innan listkennsludeildar veitir [email protected] allar upplýsingar.

Námsleiðir

Listkennsludeild LHÍ hefur þrjár námsbrautir:

 • meistaranám í listkennslufræðum (MA / M.Art.Ed),
 • meistaranám í kennslufræðum (MA / M.Ed) og
 • diplómanám í listkennslufræðum (diplóma). Innan námsbrautanna þriggja eru samtals fjórar námsleiðir:​
 • Tveggja ára, 120 eininga meistaranám í listkennslu. (MA / M.Art.Ed).Fyrir fólk með bakkalárgráðu í listgrein
 • Tveggja ára, 120 eininga meistaranám í kennslufræðum. (MA / M.Ed).NÝ NÁMSLEIÐ, fyrir fólk með bakkalárgráðu í öðru en listgreinum.
 • Eins árs, 60 eininga diplómanám til kennsluréttinda. (Diplóma).Fyrir fólk sem lokið hefur meistaragráðu í sinni listgrein.
 • Þriggja ára, 180 eininga meistaranám í listkennslu með aðfararnámi. (MA / M.Art.Ed).Fyrir fólk sem hefur lokið a.m.k. 120 einingum á bakkalárstigi í listgrein.

Tónlistardeild Listaháskóla Íslands býður upp á meistaranám í söng- og hljóðfærakennslu Brautin er ætluð þeim sem lokið hafa bakkalárgráðu eða sambærilegu námi í tónlist. Einnig býður tónlistardeild upp á nám í rytmískri og klassískri söng- og hljóðfærakennslu á bakklárstigi

Gráða

Nemendur útskrifast með Diplómu, M.Art.Ed., M.Ed., M.Mus.Ed. gráðu eða MA (rannsóknartengd gráða). Auk almennra réttinda sem meistaragráða veitir til frekara náms og starfa fá nemendur starfsréttindi (leyfisbréf) til almennrar kennslu á leik-,grunn-, og framhaldssskólastigi.

 • Umsóknarfrestur

  Meistaranám í listkennslu, kennslufræðum, diplómanámi og aðfararnám í listkennslu: 16. maí 2022.

 • Heimilisfang

  Listkennsludeild LHÍ

  Laugarnesvegur 91

  105, Reykjavík

  [email protected]

  Sími: 545 2240

  Tónlistardeild LHÍ

  Skipholt 31

  105, Reykjavík

  Sími: 545 2260

Háskólinn í Reykjavík

Háskólinn í Reykjavík býður upp á nám í heilsuþjálfun. Í náminu er fjallað um íþrótta- og kennslufræði með áherslu á heilsuþjálfun. Lögð er áhersla á hvernig auka megi lífsgæði með skipulagðri hreyfingu fyrir einstaklinga á öllum aldri og á mismunandi getustigum. MEd-gráðan veitir kennsluréttindi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Upplýsingar um hvatningarstyrki stjórnvalda til meistaranema í kennaranámi veitir [email protected].

Námsbrautir

Heilsuþjálfun og kennsla – M.Ed.

Markhópar

Ætlast er til að nemendur hafi lokið grunnnámi í íþróttafræði, sjúkraþjálfun, heilsuþjálfun, líffræði, menntavísindum eða öðrum skyldum greinum.

Gráða

M.Ed. gráða í íþróttafræði er tveggja ára meistaranám og er 120 ECTS einingar.

 • Umsóknarfrestur

  Opið fyrir umsóknir í meistaranám til íþróttakennslu til 5. júní 2022.

  Opið fyrir umsóknir í grunnnám íþróttafræðinga til 5. júní 2022.

Háskólinn á Akureyri

Kennaranám við Háskólann á Akureyri veitir traustan undirbúning til starfa í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Markmiðið er að veita þekkingu á undirstöðuþáttum kennslu, jafnframt því að leggja grunn að þeirri færni sem þarf til að þróa og móta skóla, stunda rannsóknir og stunda frekara nám.

Í meistaranáminu (bæði M.Ed. og MT) er val á milli sérhæfingar í námi og kennslu á leikskólastigi, grunnskólastigi og framhaldsskólastigi.

Hér eru upplýsingar um hvatningarstyrki stjórnvalda á síðu Háskólans á Akureyri.

Kjörsvið

Kjörsviðin í grunnnáminu eru tvö: leikskólakjörsvið og grunnskólakjörsvið.

Lengd og gráða

Kennarafræði B.Ed. – 3 ára nám, 180 ECTS einingar.
Menntunarfræði M.Ed. Kennsluréttindi – 2 ára nám, 120 ECTS einingar.
Kennarafræði MT – 2 ára nám, 120 ECTS einingar
Menntunarfræði diplóma: Kennsluréttindi – 1 árs nám, 60 ECTS einingar.

 • Umsóknarfrestur

  Umsóknarfrestur er til 5. júní ár hvert, í bæði grunn- og meistaranám.

 • Heimilisfang

  Háskólinn á Akureyri

  Norðurslóð 2600, Akureyri

  [email protected]

  s: 460 8000

SKÓLASTOFAN ER VETTVANGUR FJÖLBREYTILEIKANS

Kennaranám er eins fjölbreytt og starf kennarans! Það eru margar leiðir til þess að verða kennari. Sumir hafa vitað alla ævi að kennsla væri þeirra framtíðarstarf og fara í fimm ára kennaranám, aðrir mennta sig í öðru á bakkalárstigi en bæta svo við tveimur árum í kennslu- og menntunarfræði til að fá tækifæri til að miðla ástríðu sinni til framtíðarkynslóða.

Hvaða leið sem þú ferð, þá er áfangastaðurinn sennilega skólastofan – og hún þarf ekki endilega að hafa fjóra veggi og vera innandyra! Þú munt hafa áhrif á mótun ungs fólks í uppvexti þeirra sem er stórskemmtilegt samvinnuverkefni margra ólíkra fagstétta, og bæði krefjandi og síbreytilegt.