Leikskólakennari
Viltu vinna með ofurhetjum á hverjum degi? Leikskólakennarar skapa vettvang fyrir börn til að blómstra á fyrsta skólastiginu. Ertu að leika þér allan daginn? Já, svo sannarlega! En ertu að vinna krefjandi starf sem hefur jákvæð áhrif á lífsgæði barna og uppvöxt? Svo sannarlega líka! Leikskólakennarastarfið er fyrir konur og karla og allt þar á milli sem dreymir um að skipta máli og móta framtíðina.
Hvernig verð ég leikskólakennari?
Leikskólakennarafræði er fimm ára nám en á lokaárinu geta kennaranemar verið í 50% launuðu starfsnámi. Ný lög um kennaranám fjölga tækifærum kennara til muna því þeir fá eitt leyfisbréf með heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í meistarnámi velja nemendur á milli þess að skrifa rannsóknarritgerð (M.Ed.) eða dýpka sig með námskeiðum í tilteknum viðfangsefnum og útskrifast þá með MT-gráðu. Þá eru hvatningarstyrkir að upphæð 800.000 krónur í boði frá stjórnvöldum til allra sem klára meistaragráðu í leikskólakennarafræði, bæði þeirra sem velja M.Ed. og MT.
Ertu með BA eða BS gráðu og langar að verða leikskólakennari?
Ef þú hefur lokið bakkalárprófi í námi sem tengist uppeldisfræði eða námssviðum leikskólans geturðu farið í Menntunarfræði leikskóla. Það er meistaranám og veitir leyfisbréf til að starfa í leikskóla, sem og öðrum skólastigum. BA eða BS gráðan getur verið á sviði sálfræði, í listum, íslensku, heimspeki eða náttúruvísindum, svo dæmi sé nefnd.
Ertu með listkennsluréttindi?
Ef þú hefur útskrifast með listkennsluréttindi frá listkennsludeild LHÍ geturðu bætt við þig 30 eininga diplómanámi á meistarastigi í leikskólakennslufræðum sem veitir leyfisbréf til að starfa í leikskóla, og öðrum skólastigum. Námið er eitt ár að lengd, kennt í listkennsludeild LHÍ og skipulagt á þá vegu að nemendur geti tekið það með starfi.
Viltu byrja hægt og rólega?
Það er hægt að taka 120 eininga grunndiplómu í leikskólafræði. Að loknu námi útskrifast nemandi með diplómu og getur sótt um áframhaldandi nám til bakkalárgráðu í leikskólakennarafræði.