Ný lög um kennaranám fjölga tækifærum kennara umtalsvert því þeir fá eitt leyfisbréf með heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Kennaranemar munu þó áfram sérhæfa sig í kennslu, t.d. á leikskólastigi, í yngri barna kennslu í grunnskóla, eða til að kenna eldri börnum og ungmennum ákveðnar faggreinar, listgreinar eða íþróttir.
Allir kennaranemar, óháð því hvort þeir velja MT eða M.Ed fá styrk að upphæð allt að 800.000 krónur. Styrkurinn er frá mennta- og menningarmálaráðherra og er greiddur út í tvennu lagi.
Viltu skrifa ritgerð eða ljúka náminu með námskeiðum?
Á lokaári kennaranáms geta nemendur verið í launuðu starfsnámi, ef þeir starfa í skóla. Þeir eru einnig í fjölbreyttu vettvangsnámi allan námstímann. Kennaranemar geta valið á milli þess að skrifa rannsóknarritgerð í meistaranáminu eða styrkja sig í kennslu- og menntunarfræðum og námskeiðum sem þeir velja sjálfir eftir áhuga og ástríðu.
Með kennaranámi styrkir þú stöðu þína á vinnumarkaði bæði hér á landi sem og erlendis, en kennaramenntun er alþjóðlega viðurkennt nám. Starfið veitir fólki dýrmætt tækifæri til að starfa í teymum að uppbyggingu samfélagsins, í krefjandi, líflegu og síbreytilegu starfi kennarans.