Færslur

Ekki vera fiskur!

Höfundur er Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands.

Það er flókið að velja sér framtíðarstarf. Í þroskuðu lýðræðissamfélagi stendur fólk frammi fyrir mörgum kostum. Slíkt val er, í sögulegu samhengi, frekar ný til komið. Hjá þeim þjóðum sem styðjast við aðrar nafngiftarreglur en Íslendingar er býsna algengt að „ættarnafnið“ sé um leið starfsheiti. Í Þýskalandi, Englandi og Hollandi finnur þú Bäcker, Baker og Bakker. De Boer er bóndi og Ferraro járnsmiður; Potter er leirgerðarmaður og Rybak er sjómaður.

„Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór?“ er þannig tiltölulega nýleg spurning. Svarið við henni lá lengi í nafni þess sem svaraði. Það var í raun ekki fyrr en mennta-, lista- og atvinnulíf varð sæmilega fjölbreytt að fólk hafði raunverulega valkosti. Og þá gat svarið meira að segja verið: „Ég veit það ekki“ eða „Ekkert eitt!“

Bandaríkjamaðurinn Tom Lehrer er ágætt dæmi um mann sem kaus að verða ekkert eitt. Hann er stærðfræðingur, lagahöfundur, skemmtikraftur, hermaður og háskólakennari. Stundum var hann eitt og stundum annað; stundum blandaði hann þessu öllu saman. Árið 1972 kenndi hann t.d. inngangskúrs í bandarískum háskóla sem hann kallaði „Stærðfræði fyrir tenóra.“

Á Youtube er hægt að hlusta á mörg stórskemmtileg lög sem Lehrer gerði ódauðleg. Meðal þeirra frægustu eru Elements (þar sem hann syngur nöfn efnanna í lotukerfinu) og New Math (þar sem hann gerir grín að ruglandi nýjungagirni í stærðfræðikennslu).

Kaldhæðnislegri hlið sinni gerði hann skil í lögum eins og The Old Dope Peddler, þar sem hann sneri út úr þekktu rómantísku lagi og uppskar fyrir vikið bann á miðlum Breska ríkisútvarpsins. Af svipuðum meiði er vorvísan, um hve gaman það sé að rölta um almenningsgarðinn í góða veðrinu og eitra fyrir dúfum, Poisoning Pigeons In The Park.

Ættarnafnið Lehrer þýðir kennari. Og vissulega var Tom Lehrer kennari, meira að segja afburðafær kennari. Það sem gerði hann að góðum kennara var samt ekki sú staðreynd að að hann var afkomandi kennara. Lehrer var góður kennari vegna margvíslegra hæfileika sinna og víðtæks áhuga á listum og raungreinum, góðrar og fjölbreyttrar menntunar – og vegna þess gríðarlega hugmyndaflugs og húmors sem einkennir öll hans verk.

Góður kennari er nefnilega ekkert eitt. Þeir eru margvíslegir og ólíkir. Sumir eru innrænir en mjög áhugasamir um tiltekin fræðasvið, aðrir eru útrænir og elska að vera innan um fólk; sumir eru framsæknir og elska byltinga- og umbótastarf, aðrir eru íhaldssamir og elska að standa á traustum grunni. Saman mynda kennarar síðan einn stofn þess, sem nú er kallað, skólasamfélag. Með nemendum, foreldrum og öðru starfsfólki menntakerfisins verður til risastórt samfélag sem hannar utan um hverja nýja kynslóð þann ramma sem tryggja á að öll eigum við kost á meira en einu svari við spurningunni um það hvað við viljum verða.

Ef þú stendur nú á þessum tímamótum og veist ekki hvað þú vilt verða skora ég á þig að velta því alvarlega fyrir þér að verða kennari. Það kann að vera að það hafi aldrei hvarflað að þér. Það er varla von. Þegar kemur að því að velja sér háskólanám erum við flest búin að vera innan um kennara svo óskaplega lengi að við tökum þeim sem sjálfsögðum hlut. Einhvern tíma var sagt: „Við vitum ekki hver það var sem uppgötvaði vatnið, en við erum nokkuð viss um að það var ekki fiskur.“ Ekki vera fiskur!

En hugleiddu það í alvöru. Kennarastarfið er eitt af þessum störfum sem maður vex ekki aðeins inn í heldur vaxa með manni. Það veitir tækifæri til ævilangrar starfsþróunar og þótt það byggi á gömlum merg er nýsköpun óvíða meiri en í menntakerfum heimsins um þessar mundir. Samkvæmt spám er kennarastarfið í algjörum sérflokki þeirra starfa sem munu ná að laga sig að breyttum kröfum upplýsingatæknibyltingarinnar. Það eru nánast engar líkur á að kennarar horfi á eftir störfum sínum í faðm gervigreindar og tækni.

Það kemur til af því að kennsla reynir á allt svið mannlegra hæfileika og gengur best þegar fjölbreyttur hópur af fólki kemur saman til að móta starfið og skólana.

Ef þú vilt slást í hópinn ertu hjartanlega velkomin/n. Við, sem fyrir erum, hlökkum til að vinna með þér.

Greinin birtist fyrst á vísi.is

Margslungið og skapandi hlutverk kennarans

Höfundur er Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands

Í dag er alþjóðadagur kennara. Mikilvægi kennarastarfsins er óumdeilt og hvert það samfélag sem kappkostar að hlúa vel að kennurum allra skólastiga mun uppskera ríkulega. Á tímum örra breytinga er hlutverk kennarans í sífelldri þróun, og í raun má segja að aldrei hafi verið jafn mikil þörf fyrir eiginleika á borð við sveigjanleika, samstarfshæfni og skapandi hugsun hjá kennurum, kennaranemum og skólastjórnendum. En sígild stef kennarastarfsins hafa síður en svo glatað gildi sínu, stef á borð við ígrundun og skilning á því hvernig börn á ólíkum aldri leika, hugsa, læra og þroskast, hvernig ungt fólk tileinkar sér ólíka hæfni og færni, og þekking kennara á faggreinum og námssviðum. Hjartað í kennarastarfinu er síðan ávallt hin mannlegu samskipti, tengslin sem myndast milli kennara, barna og ungs fólks. Kennarar eru og hafa verið áhrifavaldar í lífi okkar flestra.

Hlutverk kennara í síbreytilegum heimi

Skólinn sem stofnun, hvort sem er um að ræða leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla eða háskóla, hefur gjörbreyst í áranna rás og sama gildir um hugmyndir okkar um menntun. Þjóðir víða um heim hafa skilgreint lykilhæfni 21. aldar í aðalnámskrám sínum, en það er sú hæfni sem snýr að nemandanum sjálfum og er ætlað að stuðla að alhliða þroska hans. Þetta er hæfni á borð við sköpunargáfu, félags- og samvinnufærni, sjálfstæð vinnubrögð, tjáningu og miðlun, gott siðferði, læsi á upplýsingar, gagnrýna hugsun, skilning á náttúru, menningu, sögu og samfélagi. Kennarar og skólastjórnendur bera hitann og þungann af því að innleiða ofangreindar áherslur í nám og kennslu, leik og starfi. Það er hvorki einfalt verk né fljótunnið og verðskuldar athygli, hvatningu og þátttöku frá samfélaginu öllu, allt frá foreldrum til stjórnvalda.

Kennsla er samstarf

Mikilvægt er að rifja upp að menntun er ekki fyrst og fremst tæknilegt viðfangsefni heldur siðferðilegt og felst í gagnvirku samspili kennara og nemenda, skóla og samfélags. Hér áður fyrr var litið svo á að kennarinn væri fyrst og síðast fræðari, með öll réttu svörin í handraðanum stóð hann ábúðarfullur upp við töflu og jós úr viskubrunni sínum til nemenda sem sátu fremur óvirkir og hlýddu á. Þetta hefur góðu heilli breyst. Gerð er sífellt ríkari krafa um að nemendur séu virkir í eigin námi, hvort sem um er að ræða faggreinanám í framhaldsskóla, útinám í leikskóla eða lestrarnám í grunnskóla. Kennarinn þarf ósjaldan að beita ýmsum brögðum við að kveikja áhuga nemenda og getur þurft að vera allt í senn, fræðari, leiðbeinandi, félagi og fyrirmynd.

Sjónarhorn barna og ungs fólks, þeirra reynsluheimur, upplifun, vöxtur og námsstíll er að sjálfsögðu sífelld uppspretta lærdóms fyrir kennarann sjálfan. Þá lærir kennarinn einnig með og af samstarfsfólki og öðru fagfólki, innan skóla sem utan. Eitt af því sem gerir starf kennarans flókið er að árangur nemenda hvílir á mörgum stoðum og er í raun samstarfsverkefni allra í samfélaginu. Það sem gerist fyrir utan skólann, félagslegur veruleiki nemenda, seytlar inn í skólann og um leið tekst kennarinn á við það vandasama verkefni að koma til móts við hvern einstakling, efla hann og styrkja.

Menntun kennara er ævilöng

Markmið kennaramenntunar hlýtur að vera að útskrifa nemendur sem búa yfir faglegri þekkingu og hæfni sem gerir þeim kleift að endurnýja sig í starfi og leiða þróun nýrra starfshátta. Þjóðir sem þykja bjóða upp á framúrskarandi kennaramenntun leggja ríka áherslu á að slíkt nám sé í senn fræðilegt og hagnýtt. Meginþungi fræðilega hlutans felst í því að kennaranemar öðlist þekkingu á ólíkum faggreinum og námssviðum, kynnist nýjustu rannsóknum og kenningum á sviði menntavísinda og þjálfist í aðferðum til að rannsaka og ígrunda eigið starf. Hagnýti þáttur námsins snýr þá að því að læra um aðferðir og verkfæri sem nýtast í kennslu, og að nemendur fái ríkuleg tækifæri til starfsnáms í skólum undir leiðsögn starfandi kennara. Í raun er erfitt að greina mun á því sem telst fræðilegt og þess sem teljast mætti hagnýtt. Menntarannsóknir snúast ekki síst um það að greina, skilja og meta áhrif ólíkra kennslu- og starfshátta, og leiða til þekkingar sem varpar ljósi á þau flóknu öfl sem móta nám og kennslu.

Því fer fjarri að menntun kennara ljúki við útskrift úr formlegu námi. Starfsþróun er ekki jaðarverkefni heldur þungamiðja kennarastarfsins og þegar vel tekst til, er það veigamikill þáttur í að gera kennara ánægða, sterka og sátta í starfi. Í þeim efnum vill Menntavísindasvið Háskóla Íslands gjarnan leggja enn þyngri lóð á vogarskálarnar í samstarfi við sína bandamenn.

Veit kennari af ánægju þinni?

Samkvæmt alþjóðlegri viðhorfskönnun (TALIS) sem íslenskir kennarar og skólastjórnendur taka þátt í, kemur fram að þeir fá harla litla endurgjöf og hrós fyrir störf sín. Líklega endurspeglar það þá staðreynd að Íslendingar eru almennt óduglegir við að hrósa hver öðrum. Ég vil hvetja alla landsmenn til að veita störfum kennara athygli í vetur, láta í ljós ánægju sína með vel unnin störf, sýna störfum kennara áhuga og hvetja þá áfram í þeirra mikilvægu verkefnum. Við Íslendingar treystum kennurum til að skapa námsumhverfi þar sem að börn og unglingar geta látið drauma sína rætast, geta byggt á styrkleikum sínum og fá tækifæri til að hafa áhrif á eigið nám. Það er bæði margslungið og skapandi verkefni sem krefst áhuga, hvatningar og stuðnings okkar allra. Kennarar, til hamingju með daginn.

Greinin birtist fyrst á visi.is

Það er leikur að læra

Höfundur er Helena Sjörup Eiríksdóttir, nemandi í leikskólakennarafræðum við Háskólann á Akureyri

Áhugi minn á leikskólakennarastarfinu kviknaði þegar ég var barn, mér þótti gaman að vera í kringum börn og gekk vel að passa börn annarra. Þegar ég gekk fram hjá leikskólanum á leið heim úr skóla fannst mér alltaf svo mikið líf og fjör þar. Ég var hins vegar ekkert búin að ákveða hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór, framhaldsskólalífið kveikti ekki neinn sérstakan áhuga hjá mér og ég fann mig illa þar og ákvað að fara sem au-pair til Danmerkur.

Eftir heimkomu fór ég aftur í skóla og ekki leið á löngu þar til ég var farin að vinna í leikskóla. Þar fann ég fljótt að ég var á réttri hillu. Ég fann að ég náði vel til barnanna og mér gekk vel að ráða við þau verkefni sem mér voru falin. Samstarfsfólk mitt leiðbeindi mér og sá hvað í mér bjó og hvatti mig til þess að sækja mér menntun og efla sjálfa mig sem kennara. Það má því segja að sjálfstraust mitt í starfi hafi aukist við áhuga þeirra kennara sem ég starfaði með og að sjá þær vinna faglegt og flott starf kveikti skólaáhugann á ný. Ég hóf því ferlið að læra leikskólaliðann í Borgarholtsskóla þar sem ég var ekki komin með nægilegar margar einingar upp í fullgilt stúdentspróf. Þar fann ég mig, áfangarnir spennandi, námsefnið heillandi og ég var staðráðin í því að nú væri ég komin á rétta hillu í lífinu. Eftir útskrift sótti ég um inngöngu í Háskólann á Akureyri og hóf blessunarlega þetta frábæra og skemmtilega nám haustið eftir.

Námið í Háskólanum á Akureyri hefur reynst mér vel og hefur gert mig að öflugri og betri kennara. Sýn mín á kennsluhætti og starfið hefur breyst með náminu þar sem þekking og fagmennska mín hefur aukist. Námið er fjölbreytt og hefur undirbúið mig vel fyrir störf á vettvangi. Ég tel sérstaklega að störf á vettvangi undir leiðsögn reynds kennara skipti sköpum. Í kennaranáminu í HA er lögð rík áhersla á fjölbreytt vettvangsnám og æfingakennslu, þar sem við förum sjaldan og helst aldrei aftur í sömu skólana. Það er gert til þess að við kynnumst eins fjölbreyttum og ólíkum stefnum og starfi og hægt er. Fyrirkomulag og uppsetning vettvangsnáms og æfingakennslu í HA hefur verið gríðarlega mikill lærdómur fyrir mig, ég hef séð margt og kynnst ólíkum stefnum þar sem ég hef farið í vettvangsnám og æfingakennslu á fjórum ólíkum leikskólum víðs vegar á landinu. Ég hef verið í leikskóla sem er með lágt hlutfall af faglærðum leikskólakennurum en einnig þar sem stór hluti starfsfólks er faglært starfsfólk. Ég hef því séð og upplifað muninn sem verður á starfinu eftir fjölda fagfólks.

Í kennaranáminu í HA er lögð rík áhersla á fjölbreytt vettvangsnám og æfingakennslu, þar sem við förum sjaldan og helst aldrei aftur í sömu skólana.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið, það leggur grunninn. Námið og sú reynsla sem börn fá þar getur haft varanleg áhrif á bæði lífsgæði og námsframvindu þeirra til frambúðar. Það er því afar mikilvægt að efla og hugsa um innviði og uppbyggingu leikskólanna. Við getum ekki sett allt of mörg börn í sama rýmið, við þurfum að huga að plássi fyrir hvert barn til þess að þau geti unað sér í leik og starfi. Þá þarf að huga að hljóðvist og góðri starfsaðstöðu fyrir kennara. Það þarf aukið fjármagn til þess að við getum haldið áfram að hugsa um yngstu kynslóðirnar hverju sinni. Námsumhverfið þarf að vera boðlegt fyrir bæði börn og kennara.

Ein stærsta áskorun okkar í dag er hve fáir faglærðir starfsmenn starfa innan leikskólans. Fyrir einhverja er það kannski ekki stórmál og hugsa með sér: „Getur ekki hver sem er unnið í leikskóla og er ekki frábært að einhver vilji taka það að sér?“ Þetta er vandamál sem þarf að bregðast við. Akureyri er það sveitarfélag sem stendur einna best hvað varðar fagmenntaða starfsmenn innan veggja leikskólanna og það er magnað að upplifa og sjá hversu miklu máli það skiptir í raun og veru. Það eru ekki bara þrír til fjórir starfsmenn í húsinu sem hafa réttindi til þess að taka EFI, TRASA eða gera HLJÓM-2.

Þegar skortur er á fagmenntuðu starfsfólki innan veggja skólans, glatast ýmislegt og mikilvægar kennsluaðferðir gleymast og jafnvel týnast. Það eru ekki allir sem kunna að greina og hafa vitneskju til að takast á við hin ólíku mál sem upp koma í daglegu amstri. Þar sem lítið er um fagfólk, eykst álagið á þeim fáu faglærðu sem eru til staðar. Ég þekki af eigin reynslu að aðeins deildarstjóri sé faglærður en allir aðrir ófaglærðir. Við þær aðstæður þarf deildarstjórinn að nýta sinn undirbúning til að vinna að málefnum sem tengjast öllum barnahópnum. Allt annað er uppi á teningnum í leikskóla sem er vel mannaður af fagfólki og allir starfsmennirnir geta skipt með sér undirbúningi og öðrum verkum. Undirbúningstími er mjög mikilvægur og það er ekkert í öllum leikskólum sem fólk er að fá hann, meðal annars vegna manneklu. Það er mikilvægt að undirbúningstímar séu heilagir og að fólk geti gengið að þeim í leikskóla eins og er innan grunnskólans.

Undirmönnun er stórt vandamál í leikskólum. Ég tel mikilvægt að leikskólar hafi meira svigrúm til þess að ráða fleira afleysingafólk og ef það er ekki hægt þarf að borga fyrir álagið sem fylgir undirmönnun. Ég hef heyrt að í grunnskólum fái kennarar val um að taka að sér forfallakennslu og fá greitt fyrir hana, ekki er þetta svona hjá okkur í leikskólanum. Það má því með sanni segja að það þarf að gera stórsókn þegar kemur að leikskólamálum, bæði þegar kemur að vinnuaðstæðum og faglegu starfi.

Það er mikilvægt að undirbúningstímar séu heilagir og að fólk geti gengið að þeim í leikskóla eins og er innan grunnskólans.

Mér þykir frábært að stjórnvöld boði til stórsóknar í menntamálum og að lögð sé áhersla á nýliðun og fjölgun kennaranema. Sérstaklega tek ég því fagnandi að starfsnáminu sé ætlað að undirbúa nemendur frekar undir störf á vettvangi, sem ég tel sérstaklega mikilvægt. Það er þó margt sem þarf að velta fyrir sér í tengslum við þessa leið.

  • Af hverju er svona mikill munur á því að vera læra að verða leikskólakennari og grunnskólakennari? Leikskólakennaranemi þarf að vera fleiri vikur á vettvangi, fær ekki sömu frí og nemi í grunnskóla (vetrarfrí, jól og páskar). Við erum ráðin í eitt skólaár og fáum fyrir það sömu ECTS einingarnar. Ég er ekkert síðri kennari heldur en stúlkan sem hefur setið mér við hlið í námskeiðum síðastliðin fjögur ár, þótt hún sé að læra að verða grunnskólakennari.
  • Einnig þykir mér sérkennilegt að dæmi séu um það að starfsnemar í grunnskólum gegni stöðu umsjónarkennara. Mér finnst ekki vera í boði að vera nemi með mannaforráð. Ábyrgðin sem því fylgir, ætti ekki að vera lögð á herðar nema sem á samkvæmt markmiðum starfsnámsins að fá leiðsögn og undirbúning undir kennarastarfið. Meginmarkmið og tilgangur námsins á að vera sá að efla stöðu nemans og undirbúa hann undir störf á vettvangi þegar að því kemur. Sé hann vel undirbúinn dregur það vonandi úr brotthvarfi nýliða. Það má því velta því upp hver raunverulegur tilgangur starfsnámsins sé? Eru það markmiðin sem ég hef nefnt eða er verið að bjarga kennaraskorti í ákveðnum sveitarfélögum?

En út í aðra sálma. Ég tel að við getum gert mun betur þegar kemur að viðhorfi gagnvart ófaglærðum sem eru fjölmargir bæði flottir og góðir starfsmenn í leikskólum landsins. Það er faglærðra og stjórnenda að hvetja þá áfram í nám til að efla þá enn frekar. Hér tala ég af reynslunni. En það er ekki einungis leikskólinn sjálfur og starfsfólk hans sem getur haft skapandi áhrif í þeim málum heldur eru það sveitarfélögin sem þurfa að grípa boltann og ýta á eftir. Tökum dæmi. Margir kennaranemar eru starfandi og fá frí í vinnunni til að geta mætt í námslotur sem eru mikilvægur þáttur í náminu. Þar lærum við hluti sem ekki er hægt að læra í gegnum bók eða tölvuna – heldur þurfum að vera í rauntíma. Það getur t.d. haft mikil áhrif að fá greidd laun í lotum sem eru fjórir til átta dagar á hverju skólamisseri. Ekkert rosalegur peningur í stóra samhenginu fyrir sveitarfélagið en skiptir sköpum fyrir náms-/starfsmanninn sem er að reka heimili og á kannski ekki maka til að aðstoða sig við útgjöldin.

Það sem mér finnst skemmtilegast við leikskólakennarastarfið er að engir tveir dagar eru eins, ég sem kennari hef áhrif á mótun starfsins og þar af leiðandi á nám barnanna. Ég sé mig í mikilvægu starfi, sem skiptir máli í lífi barna og það má því segja að það munar um mig og mína menntun. Börnin fullvissa mig á hverjum degi um hversu mikilvæg ég er og hversu mikið ég get kennt þeim með því að vera til staðar, hlusta og leiðbeina þeim. Það er ÉG sem leikskólakennari sem er að hafa áhrif á nám og líf þeirra barna sem ég vinn með. Ég er að kenna félagsleg samskipti, gagnrýna hugsun, skilning og virðingu fyrir náunganum, allt í gegnum leik í þeim tilgangi að gera börnin að virkum þátttakendum í samfélaginu. ÉG get því sagt það með vissu að ég er MIKILVÆG.

Ég sé mig í mikilvægu starfi, sem skiptir máli í lífi barna og það má því segja að það munar um mig og mína menntun.

Þrátt fyrir að vilja vera jákvæð og bjartsýn og benda á góða hluti sem verið er að ráðast í er staðreyndin sú að starfsaðstæður þarf að bæta og launin þurfa að hækka. Á meðan launin eru eins og raun ber vitni, verður einungis erfiðara og erfiðara að fá ungt fólk til þess að vilja mennta sig sem kennara. AÐ LOKUM: Það er kominn tími til að samfélagið geri sér grein fyrir því að leikskólinn er raunverulega fyrsta skólastigið sem leggur grunninn að öllu því sem koma skal. Ef ekki verður hugsað um það að halda fagfólkinu í leikskólanum þá gætum við staðið frammi fyrir því að leikskólinn, fyrsta skólastigið, breytist í geymslu.

Greinin birtist upphaflega í Skólavörðunni.

Ekki sitja og bíða og vona

Höfundur er Sveinn Þorgeirsson, aðjúnkt við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík

Starf íþrótta­kenn­ara er í senn fjöl­breytt, krefj­andi og spenn­andi. Hver dagur hefur sínar áskor­anir og sjar­ma, enda bygg­ist kennslan á hæfni í mann­legum sam­skiptum við börn og ungt fólk í mót­un. Í skóla­kerf­inu fáum við ein­stakt tæki­færi til að stíga inn sem jákvæðar fyr­ir­myndir varð­andi heilsu og hreysti frá unga aldri. Á þeim tíma má stuðla að því að ein­stak­lingar móti sér jákvætt við­horf gagn­vart heilsu og hreyf­ingu fyrir lífs­tíð.

Margir sem lesa þennan pistil eiga eflaust áhuga­mál sem teng­ist hreyf­ingu. Þeir geta þá hugsað til þess hvort þeir hafi þurft mikla hvatn­ingu í hvert skipti til að ganga á fjöll, eða fara 18 holur í golfi? Senni­lega ekki, – við gerum þetta vegna þess að athæfið í sjálfu sér gefur okkur svo mikla ánægju. Það er ómögu­legt að meta til fjár þau jákvæðu heilsu­fars­legu áhrif sem hljót­ast af reglu­bund­inni hreyf­ingu sem við getum fengið í gegnum áhuga­mál okk­ar. Áhrif sem við tengjum alla jafna við hjarta og vöðva en eru ekki síður mik­il­væg fyrir heila­starf­semi og tauga­kerfið okk­ar. Rann­sóknir sýna okkur skýrt þessi tengsl, enda ekki að ástæðu­lausu að Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­unin (WHO) leggur til klukku­stund af hreyf­ingu á dag fyrir börn og hálf­tíma fyrir full­orðna og eldra fólk.

Góðir íþrótta­kenn­arar leika lyk­il­hlut­verk í því að kynna mögu­leik­ana á þátt­töku í skipu­lögðu íþrótta­starfi, aðstöðu til heilsu­ræktar og úti­vistar í nærum­hverf­inu fyrir nem­end­um. Hver veit hversu mörgu íþrótta­fólki hefur verið „ýtt“ inn á réttar brautir af kenn­ara með þekk­ingu og inn­sæi sem kemur auga á hæfi­leika í leyn­um? „Heyrðu vin­ur, þetta var rosa­legt stökk hjá þér, – hefur þú prófað frjálsar íþrótt­ir?“. Það er nefni­lega svo margt sem vinnst með því að koma börnum af stað í hreyf­ingu og kveikja áhuga því meiri fjöl­breytt hreyf­ing getur af sér meiri hreyfi­færni og betra lík­am­legt ástand, sem aftur leiðir til meiri hreyf­ing­ar. Þannig getum við beint unga fólk­inu okkar inn á brautir þar sem hreyf­ing er sjálf­sagður þáttur af heil­brigðum lífs­stíl til fram­tíð­ar.

Hugs­aðu þér alla hæfn­ina sem kenn­arar læra í námi og í starfi. Fyrir utan að vera sér­fræð­ingar í sínum fögum þurfa þeir að vera ein­stak­lega skipu­lagð­ir, sann­gjarnir og hvetj­andi. Öðru­vísi gengur kennslan ein­fald­lega ekki upp. Íþrótta­fræð­ingar með meistara­gráðu í kennslu­fræði eru mjög eft­ir­sóttir starfs­kraftar bæði í kennslu og þjálfun enda byggja þeir á frá­bærum grunni þekk­ingar á lík­am­anum og hreyf­ingum og þeim aðferðum sem best henta til kennslu hverju sinni.

Ég vil hvetja þig til að kynna þér ræki­lega kosti þess að læra íþrótta­fræði og taka kennslu­rétt­indi til að ger­ast íþrótta­kenn­ari.

Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum.

Áhrifavaldarnir – vegna þeirra er ég hér

Höfundur er Sólveig María Árnadóttir, meistaranemi í menntunarfræðum við Kennaradeild Háskólans á Akureyri.

„Mamma fer alveg að koma, mamma fer alveg að verða búin í vinnunni, vittu til,“ sögðu leikskólakennararnir hughreystandi við litlu grátandi stúlkuna á leikskólanum Smábæ í Hrísey. Hún var í eðli sínu þrjósk og ekki tilbúin að trúa hverju sem er (hvorki þá né í dag) en Erna og Fríða með sinni einstöku hlýju og umhyggju gáfu stúlkunni það hald og traust sem slíkar sálir þurfa.

Litla stúlkan flutti frá eyjunni sinni og Sigrún Ásmunds umsjónarkennari tók á móti henni í 2. bekk í Síðu¬skóla og allt í einu var stúlkan farin að leika skólaleiki í frítíma. Margrét Baldvins var sáttasemjarinn þegar kom að stríðsástandi sem ríkti á heimili stúlkunnar þegar stærðfræðin gekk ekki upp. Helga Lyngdal og Tobba stóðu sig eins og hetjur á miðstigi þegar þurfti að takast á við erfiðan hugarheim litlu stúlkunnar og vinkvennanna sem töldu heiminn vera að hrynja þegar þær fengu ekki að vera allar í sama bekknum. Fríða frænka, heimilisfræðikennari fyrirgaf brussunni alltaf og kenndi henni dýrmæt handtök í eldhúsinu og þolinmæði Gulla smíðakennara var aðdáunarverð.

Á unglingastigi beið litlu stúlkunnar nýr heimur. Sigga og Siggu beið ærið verkefni þegar þau tóku á móti 8. bekk og vá, hvað það voru skemmtileg ár sem tóku við. Metnaðarfull og umhyggjusöm, héldu þau fast utan um hópinn. Bibbi kveikti áhuga litlu stúlkunnar á alþjóðasamskiptum og samstarfi og gaf henni dýrmæta reynslu þegar hún fékk að fara til Rómar í námsferð í 9. bekk. Danska sem átti víst að vera leiðinlegt fag, var skemmtileg með Kristínu List og Sonju. Björk hvatti litlu stúlkuna áfram í enskunni og Hrefna Frímann leiddi hana í gegn um stærðfræðina sem var oft ansi erfið. Siggi var ákveðinn og metnaðarfullur og gerði náttúrufræði allt í einu skemmtilega. Með Siggu Jóh var svo allt skemmtilegt og gerlegt, enda metnaðarfull og með óbilandi trú á litlu stúlkunni. Það sama á við um Sigrúnu Sig sem kvaddi litlu stúlkuna með fallegum orðum þegar hún hélt út í lífið, þessi orð hafa fylgt henni síðan.

Litla stúlkan fylgdi hefðum föðurfjölskyldunnar og fór í Menntaskólann á Akureyri. Þar kveiktu Linda og Bjarni Guðmunds nýjan áhuga stúlkunnar á sálfræði og þegar Linda leiðbeindi henni í lokaverkefni, breyttist allt. Hildur Hauks gerði enskuna einstaka, Logi Ásbjörns kveikti áhugann á kynjafræði og ef það hefði ekki verið fyrir Einar Sigtryggs hefði litla stúlkan aldrei náð stærðfræðinni. Með Einari Brynjólfs fóru stjórnmál að vera áhugamál og með Bjössa Viff varð saga skemmtileg. Jónasi Helga tók svo að gera það sem hafði alltaf verið svo leiðinlegt og erfitt, áhugavert og hvetjandi. Áhugi og metnaður Eyrúnar Huldar í íslensku gerði það að verkum að litla stúlkan hefur lagt mikla áherslu á íslenskukennslu í námi sínu.

Litla stúlkan er ég, meistaranemi í menntunarfræðum við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Ég er ekki einsdæmi. Langflestir muna eftir sínum áhrifavöldum og þar eru kennarar ofarlega á lista. Þessi listi hér að ofan er þó alls ekki tæmandi og á hann vantar nokkur nöfn. En hann sýnir þó hvers vegna ég valdi kennarafræði. Ef það hefði ekki verið fyrir alla þessa mögnuðu og metnaðarfullu kennara, hefði ég aldrei skráð mig í kennarafræði. Þessir einstaklingar eiga það allt sameiginlegt að hafa haft mikil áhrif á mitt líf. Með ólíkum hætti hafa þeir allir haft áhrif á það hvar ég er í dag og hvernig ég horfi á lífið. Ef þú vilt raunverulega hafa áhrif á samfélagið, er kennarastarfið, rétta starfið fyrir þig.

Komdu að kenna!

Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum.

Svo miklu, miklu meira

Höfundur er Hákon Sæberg, nýlega útskrifaður grunnskólakennari frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Á síð­ast­liðnum árum hefur tölu­vert verið fjallað um kenn­ara­skort sem blasir við í leik- og grunn­skólum lands­ins. Í kjöl­farið hefur skap­ast nokkur umræða um kenn­ara­starfið sjálft; virð­ingu stétt­ar­innar og hvernig hvetja megi fólk til þess að fara í kenn­ara­nám.

Í þess­ari umræðu eru margir sem hafa haft orð á því hvað kenn­ara­starfið sé skemmti­legt og/eða gef­andi. Það hefur lengi farið nokkuð fyrir brjóstið á mér þegar þessi orð eru notuð til þess að lýsa starfi kenn­ara, því þau eru að mínu mati til marks um ákveðið virð­ing­ar­leysi gagn­vart kenn­ur­um. Ef starf lög­fræð­inga eða lækna væri til umræðu á ég erfitt með að ímynda mér að sú umræða sneri að því hversu skemmti­legt og gef­andi það væri. Þegar full­yrt er að starf kenn­ar­ans sé skemmti­legt og gef­andi má líta svo á að það sé fyrst og fremst unnið í þágu kenn­ar­ans sjálfs:

Kenn­ara­starfið er svo skemmti­legt – fyrir kennar­ann.

Kenn­ara­starfið er svo gef­andi – fyrir kennar­ann.

Mál­flutn­ingur sem þessi er hvorki til þess fall­inn að auka hróður stétt­ar­innar né gefur hann rétta mynd af raun­veru­legum ástæðum kenn­ara fyrir starfs­vali sínu. Sá sem ætl­aði að leggja fyrir sig starf með það efst í huga að það ætti að vera skemmti­legt og gef­andi myndi vænt­an­lega velja sér eitt­hvað annað en þá háskóla­mennt­uðu starfs­stétt sem glímir við hvað mestan kvíða, and­legt álag og vefja­gigt. Ástæðan fyrir því að fólk leggur fyrir sig starf kenn­ar­ans ristir dýpra en svo. Kenn­ara­starfið er ekki bara „skemmti­legt og gef­and­i“, heldur svo miklu, miklu meira en það.

Hvað er kenn­ara­starf­ið?

Starf kenn­ar­ans er að und­ir­búa kom­andi kyn­slóðir fyrir fram­tíð­ina. Menntun er ein af grunn­stoðum sam­fé­lags­ins og gegnir lyk­il­hlut­verki í fram­þróun þess. Í því felst að til­einka nem­endum skap­andi og gagn­rýna hugsun og kenna þeim að takast á við ófyr­ir­sjá­an­legar áskor­anir fram­tíð­ar­innar á skap­andi hátt. Á tímum veld­is­vaxtar í tækni­fram­förum og yfir­vof­andi breyt­inga á lofts­lagi jarðar vegna hnatt­rænnar hlýn­unar er sam­fé­lag okkar að taka hrað­ari breyt­ingum en nokkru sinni fyrr. Það er erfitt að spá fyrir um hvaða áskor­anir munu blasa við ungu fólki í dag þegar fram líða stund­ir. Þannig má færa rök fyrir því að kenn­ara­starfið hafi sjaldan verið mik­il­væg­ara fyrir fram­tíð­ina en einmitt nú.

Starf kenn­ar­ans er hlekkur í að við­halda öfl­ugu lýð­ræði í sam­fé­lag­inu. Einn meg­in­til­gangur mennt­unar er að und­ir­búa ein­stak­linga til að verða virkir þátt­tak­endur í lýð­ræð­is­legu sam­fé­lagi. Það felur í sér að rækta hjá nem­endum lýð­ræð­is­leg gildi s.s. sam­á­byrgð, sam­vinnu, sam­ræðu, sam­kennd, gagn­rýna hugsun og virkni í lýð­ræð­is­legu þjóð­fé­lagi. Á tímum þar sem m.a. upp­gangur þjóð­ern­ispopúl­isma og dreif­ing fals­frétta ógnar lýð­ræð­inu víðs vegar um heim­inn má færa rök fyrir því að kenn­ara­starfið hafi sjaldan verið mik­il­væg­ara lýð­ræð­inu en einmitt nú.

Starf kenn­ar­ans er krefj­andi sér­fræð­ings­starf sem þarfn­ast sér­fræði­þekk­ingar til þess að koma til móts við ólíkar þarfir fólks. Í því felst að koma til móts við ein­stak­lings­bundnar þarfir nem­enda og stuðla að alhliða þroska þeirra allra. Kenn­ar­inn þarf að hafa sér­þekk­ingu á námi og kennslu til að geta skipu­lagt athafnir og verk­efni sem efla hæfni nem­enda og hvetja þá til frek­ari þekk­ingaröfl­un­ar. Sam­hliða því þarf að huga að ólíkum þörfum hvers ein­stak­lings sem allir hafa ólíkan bak­grunn, þarfir og færni. Með til­komu skóla án aðgrein­ingar og síauknum fjöl­breyti­leika og fjöl­menn­ingu í nútíma sam­fé­lagi hefur þörf fyrir því að koma til móts við ein­stak­lings­þarfir nem­enda auk­ist til muna. Þannig má færa rök fyrir því að sér­fræði­þekk­ing kenn­ara á námi og kennslu hafi sjaldan verið mik­il­væg­ari en einmitt nú.

Þetta er aðeins brot af því sem kenn­ara­starfið snýst um enda ekki ætl­unin að setja fram tæm­andi lista yfir eðli þess. Orð eins og „skemmti­legt og gef­andi“ gefa aftur á móti ekki rétta mynd af starf­inu. Það er því nauð­syn­legt í allri umræðu um kenn­ara­starfið að benda á raun­veru­legt eðli þess og þá virð­ingu sem starfið á skil­ið.

Kenn­ara­starfið er mik­il­vægt – fyrir fram­tíð­ina.

Kenn­ara­starfið er mik­il­vægt – fyrir lýð­ræðið.

Kenn­ara­starfið er mik­il­vægt – fyrir fjöl­breyti­leik­ann.

Kenn­ara­starfið er fyrst og fremst mik­il­vægt.

Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum