Svo miklu, miklu meira

Höfundur er Hákon Sæberg, nýlega útskrifaður grunnskólakennari frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Á síð­ast­liðnum árum hefur tölu­vert verið fjallað um kenn­ara­skort sem blasir við í leik- og grunn­skólum lands­ins. Í kjöl­farið hefur skap­ast nokkur umræða um kenn­ara­starfið sjálft; virð­ingu stétt­ar­innar og hvernig hvetja megi fólk til þess að fara í kenn­ara­nám.

Í þess­ari umræðu eru margir sem hafa haft orð á því hvað kenn­ara­starfið sé skemmti­legt og/eða gef­andi. Það hefur lengi farið nokkuð fyrir brjóstið á mér þegar þessi orð eru notuð til þess að lýsa starfi kenn­ara, því þau eru að mínu mati til marks um ákveðið virð­ing­ar­leysi gagn­vart kenn­ur­um. Ef starf lög­fræð­inga eða lækna væri til umræðu á ég erfitt með að ímynda mér að sú umræða sneri að því hversu skemmti­legt og gef­andi það væri. Þegar full­yrt er að starf kenn­ar­ans sé skemmti­legt og gef­andi má líta svo á að það sé fyrst og fremst unnið í þágu kenn­ar­ans sjálfs:

Kenn­ara­starfið er svo skemmti­legt – fyrir kennar­ann.

Kenn­ara­starfið er svo gef­andi – fyrir kennar­ann.

Mál­flutn­ingur sem þessi er hvorki til þess fall­inn að auka hróður stétt­ar­innar né gefur hann rétta mynd af raun­veru­legum ástæðum kenn­ara fyrir starfs­vali sínu. Sá sem ætl­aði að leggja fyrir sig starf með það efst í huga að það ætti að vera skemmti­legt og gef­andi myndi vænt­an­lega velja sér eitt­hvað annað en þá háskóla­mennt­uðu starfs­stétt sem glímir við hvað mestan kvíða, and­legt álag og vefja­gigt. Ástæðan fyrir því að fólk leggur fyrir sig starf kenn­ar­ans ristir dýpra en svo. Kenn­ara­starfið er ekki bara „skemmti­legt og gef­and­i“, heldur svo miklu, miklu meira en það.

Hvað er kenn­ara­starf­ið?

Starf kenn­ar­ans er að und­ir­búa kom­andi kyn­slóðir fyrir fram­tíð­ina. Menntun er ein af grunn­stoðum sam­fé­lags­ins og gegnir lyk­il­hlut­verki í fram­þróun þess. Í því felst að til­einka nem­endum skap­andi og gagn­rýna hugsun og kenna þeim að takast á við ófyr­ir­sjá­an­legar áskor­anir fram­tíð­ar­innar á skap­andi hátt. Á tímum veld­is­vaxtar í tækni­fram­förum og yfir­vof­andi breyt­inga á lofts­lagi jarðar vegna hnatt­rænnar hlýn­unar er sam­fé­lag okkar að taka hrað­ari breyt­ingum en nokkru sinni fyrr. Það er erfitt að spá fyrir um hvaða áskor­anir munu blasa við ungu fólki í dag þegar fram líða stund­ir. Þannig má færa rök fyrir því að kenn­ara­starfið hafi sjaldan verið mik­il­væg­ara fyrir fram­tíð­ina en einmitt nú.

Starf kenn­ar­ans er hlekkur í að við­halda öfl­ugu lýð­ræði í sam­fé­lag­inu. Einn meg­in­til­gangur mennt­unar er að und­ir­búa ein­stak­linga til að verða virkir þátt­tak­endur í lýð­ræð­is­legu sam­fé­lagi. Það felur í sér að rækta hjá nem­endum lýð­ræð­is­leg gildi s.s. sam­á­byrgð, sam­vinnu, sam­ræðu, sam­kennd, gagn­rýna hugsun og virkni í lýð­ræð­is­legu þjóð­fé­lagi. Á tímum þar sem m.a. upp­gangur þjóð­ern­ispopúl­isma og dreif­ing fals­frétta ógnar lýð­ræð­inu víðs vegar um heim­inn má færa rök fyrir því að kenn­ara­starfið hafi sjaldan verið mik­il­væg­ara lýð­ræð­inu en einmitt nú.

Starf kenn­ar­ans er krefj­andi sér­fræð­ings­starf sem þarfn­ast sér­fræði­þekk­ingar til þess að koma til móts við ólíkar þarfir fólks. Í því felst að koma til móts við ein­stak­lings­bundnar þarfir nem­enda og stuðla að alhliða þroska þeirra allra. Kenn­ar­inn þarf að hafa sér­þekk­ingu á námi og kennslu til að geta skipu­lagt athafnir og verk­efni sem efla hæfni nem­enda og hvetja þá til frek­ari þekk­ingaröfl­un­ar. Sam­hliða því þarf að huga að ólíkum þörfum hvers ein­stak­lings sem allir hafa ólíkan bak­grunn, þarfir og færni. Með til­komu skóla án aðgrein­ingar og síauknum fjöl­breyti­leika og fjöl­menn­ingu í nútíma sam­fé­lagi hefur þörf fyrir því að koma til móts við ein­stak­lings­þarfir nem­enda auk­ist til muna. Þannig má færa rök fyrir því að sér­fræði­þekk­ing kenn­ara á námi og kennslu hafi sjaldan verið mik­il­væg­ari en einmitt nú.

Þetta er aðeins brot af því sem kenn­ara­starfið snýst um enda ekki ætl­unin að setja fram tæm­andi lista yfir eðli þess. Orð eins og „skemmti­legt og gef­andi“ gefa aftur á móti ekki rétta mynd af starf­inu. Það er því nauð­syn­legt í allri umræðu um kenn­ara­starfið að benda á raun­veru­legt eðli þess og þá virð­ingu sem starfið á skil­ið.

Kenn­ara­starfið er mik­il­vægt – fyrir fram­tíð­ina.

Kenn­ara­starfið er mik­il­vægt – fyrir lýð­ræðið.

Kenn­ara­starfið er mik­il­vægt – fyrir fjöl­breyti­leik­ann.

Kenn­ara­starfið er fyrst og fremst mik­il­vægt.

Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum