Í hvað erum við að flýta okkur?

Höfundur er Ingvi Hrannar Ómarsson. Hann er kennari og forsprakki UTÍS-hópsins sem er handhafi hvatningarverðlauna Íslensku menntaverðlaunanna árið 2020.

Fullt heiti greinar: Í hvað erum við að flýta okkur? Ofuráhersla á bóklega færni ungra barna dregur úr hæfni þeirra í því sem mestu máli skiptir.

Við höfum öll takmarkaðan tíma og það hvernig við notum hvern dag safnast saman í það sem við gerum. Ekki það sem við ætlum kannski að gera á morgun, heldur er hæfni okkar, heilsa og þekking byggð á því sem við gerðum, borðuðum og lærðum í dag. Lífið er fullt af deginum í dag … ekki morgundögum. Ef við ætlum að verða góð í einhverju þurfum við að gera það í dag. Ekki mögulega á morgun.

Hvernig börn verja sínum tíma skiptir gríðarlegu máli. Árin, frá eins til sex ára, eru líklega þau mikilvægustu í lífi hverrar manneskju. Þá byggjum við upp mikið af hæfni okkar til samskipta og það er einmitt á þessum aldri sem samhygð (e. empathy) barna þroskast og mótast. Án hennar er grundvöllur fyrir nær öllum eðlilegum samskiptum og velgengni í lífinu á veikum grunni byggður.

Burdette og Whitaker (2005) segja í grein  sinni, Resurrecting free play in young children – Looking beyond fitness and fatness to attention, affiliation, and affect, að þó margt geti orðið til við að hjálpa okkur við að mynda tengsl við aðra, telja þau að samhygð, sem er skilgreind sem hæfnin til að þekkja og skilja eigin tilfinningar og annarra og er hæfileiki sem þroskist á barnsaldri, sé lykillinn að góðum samskiptum seinna meir og þroskist og þróist einkum í frjálsum leik. Það sé frjáls leikur sem sé best til þess fallinn að þjálfa þá samhygð, samskiptahæfni og skapandi hugsun sem er nauðsynleg okkur í lífinu.

Leikur er okkur eðlislægur og og hið sama gildir um flest dýr í náttúrunni. Mannfólkið eru þau einu sem skipulega draga úr honum. Eða … setja leiknum vaxandi hömlur. Hér er dæmi um hrafn sem fann lok af jógúrt og ákvað að renna sér niður húsþak með því. Enginn tilgangur annar en leikurinn sjálfur. En leikurinn hefur einmitt  heilmikinn tilgang í sjálfu sér.

Paley (2009) bendir á að allur leikur með öðrum krefjist þess að við leysum vandamál, að við ákveðum hvað við eigum að gera, hverjir eiga að taka þátt, hvenær við byrjum, hvenær við hættum og hverjar séu reglur leiksins. O’Neal, Dunn og Martinsen (2000) segja rannsóknir þeirra sýna að frjáls leikur bæti andlega og félagslega hæfni barna og geti dregið úr kvíða, depurð, árásargirni og þar að auki bætt svefn.

Frjáls leikur fær minni tíma með hverju árinu og það er að hafa gríðarleg áhrif á börn og ungmenni

En þrátt fyrir mikilvægi leiksins, umfram flest annað, sem börn geta varið tíma sínum í, er kerfisbundið verið að minnka hann og hefur tími til frjálsra leikja barna, bæði innan og utan heimilis minnkað verulega á síðustu áratugum. Ekki er hægt að skella skuldinni á snjallsímanotkun, heldur hefur þetta verið að þróast í langan tíma.

Hofferth og Sandberg (2001) fundu í langtímarannsókn sinni að á árunum 1981–1997 styttist frjáls leiktími barna í Bandaríkjunum um 25% og breyttist í skipulagt starf að einhverju leyti. Breytingin frá 1981–1997 var sú að sex til átta ára börn nýttu 18% meiri tíma í skóla, 145% meiri tíma í heimanám, 168% meiri tíma í verslunarferðir með foreldrum, 55% minni tíma að eiga samskipti heima fyrir og 25% minni tíma í leik. Færum okkur fram um 20 ár frá því að rannsóknin var gerð og bætum við snjalltækjum, leikjatölvum og internetinu … En kannski börnin leiki sér svona mikið í tölvunni því það er eini staðurinn þar sem þau geta leikið sér frjálst, án aðkomu fullorðinna og án stýringar. Mörg börn mega ekki fara út ein, og jafnvel þó þau gerðu það eru þau ólíkleg til þess að finna jafnaldra í svipuðum leiðangri.

Peter Gray segir m.a. í bók sinni Free to Learn að í gangi sé svokallað anti-play attitude sem lýsi sér í auknum áherslum á frammistöðu sem hægt er að mæla á einfaldan og fljótlegan hátt og fyrir vikið sé minni áhersla á raunverulegt nám sem er erfitt að mæla og það hafi slæm áhrif á þroska barna.

Fyrr og meira er ekki alltaf betra

Að ná góðu valdi á lestri er mikilvæg hæfni, en að reyna að ná henni eins snemma í þroskaferlinu og hægt er er kannski ekkert alltof góð hugmynd. Mörg börn geta lært að lesa fjögurra til fimm ára, en rannsóknir sýna að það hafi ekkert endilega góð áhrif á lestrarhæfni þeirra síðar eða að þau standi eitthvað framar börnum sem ná tökum á lestrinum síðar. Meira að segja gæti það hamlað þeim.

Í grein um rannsókn sem birtist í Early Childhood Research Quarterly sem ber heitið: Children learning to read later catch up to children reading earlier (Suggate o.fl., 2013), segir m.a. að rannsóknir hafi sýnt að það að hefja lestrarnám fimm ára, í stað sjö ára, hafi engin jákvæð áhrif á lestrargetu hópanna tveggja þegar þau urðu ellefu ára og að það að byrja fyrr geti beinlínis haft neikvæð áhrif. Þau börn sem byrjuðu fimm ára sýndu almennt neikvæðari viðhorf gagnvart lestri og bjuggu yfir slakari lesskilningi við ellefu ára aldur en þau sem hófu formlegt lestrarnám sjö ára.

En ef aukin áhersla m.a. á lestur og formlegt nám fyrr hefur engin (eða jafnvel neikvæð) áhrif þegar þau eldast, hvað ættum við þá að gera í staðinn?

  1. Við gætum dregið úr kröfum þess í leikskóla að öll börn þurfi að kunna að lesa þegar þau útskrifast þaðan.

Sum börn geta lesið strax á leikskólaaldri, en að ætlast til að öll fimm ára börn eigi að geta lesið er óraunhæft og gæti verið hættulegt. Jake Miller (2018) skrifar m.a. í Harvard Gazette að nú þegar skólar verða meira bókamiðaðir og yfirtaka meira af tíma barnanna sé það í sumum tilvikum að valda skaða. Mörg börn eiga erfitt með að mæta óraunhæfum bóklegum kröfum skólakerfisins og eru merkt og lyfjuð við alls kyns kvillum eða sjúkdómum sem oft birtast aðeins innan skólakerfisins.

Í rannsóknum sínum segja Carlsson-Paige, McLaughlin og Almon (2015) að þegar gerðar eru námskröfur sem eru ekki við hæfi fyrir þeirra þroska, getu eða lærdómsstíl geti það valdið þeim kvíða, vanmætti og ruglingi (e. confusion). Að auki benda þær á að leikskólar sem leggja meiri áherslu á leik heldur en formlegt nám sýni betri niðurstöðu bæði náms- og félagslega þegar frá líður.

  1. Lengja útiveru í leikskólum og frímínútur í grunnskólum.

Ein besta bók sem ég hef lesið, og vitnað í margoft í þessum pistli er bókin Free to learn eftir Peter Gray. Peter bendir einmitt á að í mikilli útiveru skammti börnin sér sjálfum hæfilegu magni af ótta og tilraunum. Þau róla sér, renna sér, snúast og klifra, hoppa niður af hlutum og lenda stundum harkalega. Með því læra þau ekki aðeins að stýra líkama sínum heldur einnig að takast á við ótta ótta sinn og þau kenna sér sjálf að draga úr kvíða sínum.

Í rannsókn sem kallast Healthy schools for healthy kids og var gerð á meðal 500 kennara og 800 foreldra töldu 90% kennara og 86% foreldra að börn sem hreyfðu sig reglulega væru betur í stakk búin að læra og sýndu betri hegðun í skóla (Robert Wood Johnson Foundation, 2003).

  1. Leikskóli fyrir eins til sjö ára og grunnskóli sjö til sautján ára

Ég tel að leikskóli sé einhver mikilvægasti tími í lífi hvers barns og ætti jafnvel að hækka leikskólaaldurinn um eitt ár (eins eða tveggja til sjö ára), gera hann gjaldfrjálsan, a.m.k. frá fjögurra ára aldri og seinka útskrift úr grunnskóla um eitt ár (sjö til sautján ára). Með því værum við að gefa börnum meiri tíma til að vera börn, vera frjáls, leika sér frjálst, þroska samskipti og samhygð. Vissulega gera þau það í grunnskóla, en því seinna sem þau eru tekin úr frjálsum leik og látin setjast niður við borð í marga tíma á dag, því betra.

Við höfum öll takmarkaðan tíma á hverjum degi og það hvernig við notum hvern dag leggur grunn að því sem við verðum síðar góð í. Ef við viljum að börnin okkar séu sjálfstæð, góð í samskiptum, skapandi og heilbrigð líkamlega og andlega þurfum við að leyfa þeim að leika sér frjálst og skipuleggja að einhverju leyti sitt eigið nám og sinn eigin dag.

Ginny Yurich (e.d.) segir í grein sinni, Let’s stop stealing time from children, að börn hafi ekki alltaf þurft topp-einkunnir í hornafræði eða efnafræði til þess að ganga vel í lífi sínu sem fullorðnir einstaklingar, en þau hafi alltaf þurft tíma. Tíma til að læra hver þau eru. Tíma til að rannsaka umhverfi sitt. Tíma til að læra hvernig þau geta verið ein og nægjusöm og hvernig þau skipuleggja frítíma sinn. Tíma til að hugsa, til að dreyma, til að láta tímann líða og tíma til að velta hlutum fyrir sér. Börn þurfa tíma og þegar skóladagurinn, heimavinnan og verkefni, sem stýrt er af fullorðnum, eru farin að taka langstærstan hluta af lífi barna, sitjum við eftir með týnd börn sem hafa ekki þroska eða hæfni til að stýra sér sjálf.

Over the past half century or more we have seen a continuous erosion of children’s freedom to play and, corresponding with that, a continuous decline in young people’s mental and physical health. If this trend continues, we are in serious danger of producing generations of future adults who cannot find their own way in life (Gray, 2013).  (Í lauslegri þýðingu: Undanfarna hálfa öld og jafnvel lengur höfum við séð stöðuga skerðingu á frelsi og leik barna, og í samræmi við það, stöðugt versnandi heilsu fólks, bæði andlega og líkamlega. Haldi þetta áfram stöndum við frammi fyrir þeirri vá að til verði kynslóðir fólks í framtíðinni sem eiga erfitt með að átta sig á sinni eigin tilveru.)

Ekkert sem við gerum kemur í stað þess frelsis sem við tökum burt með endalausu skipulögðu starfi innan og utan skóla. Hlutir sem börn læra, á eigin forsendum, í frjálsum leik með sjálfum sér og öðrum, er einfaldlega ekki hægt að kenna jafn vel á annan hátt.

Greinin birtist í tímaritinu Skólaþræðir í febrúar 2021, til heiðurs Ingvari Sigurgeirssyni prófessor sjötugum.

Ingvi Hrannar Ómarsson er menntaður grunnskólakennari og með meistaragráðu frá Stanford Háskóla í Bandaríkjunum. Hann hefur m.a. beitt sér fyrir notkun upplýsingatækni í skólum. Hann stofnaði #menntaspjall á Twitter og er forvígismaður Utís, árlegra ráðstefna fyrir kennara og skólafólk um upplýsingatækni, nýsköpun og skólaþróun. Hann er handhafi hvatningarverðlauna Íslensku menntaverðlaunanna 2020 fyrir framúrskarandi stuðning við starfsþróun íslenskra kennara með miðlun framsækinna hugmynda um skapandi skólastarf, nýsköpun og upplýsingatækni þar sem nemandinn er í brennidepli.

Ljósmynd með grein: Robert Collins / UNSPLASH

Heimildir:

Burdette, H. L. og Whitaker, R. C. (2005). Resurrecting free play in young children: looking beyond fitness and fatness to attention, affiliation, and affect. Archives of pediatrics & adolescent medicine, 159(1), 46-50. https://jamanetwork.com/journals/jamapediatrics/fullarticle/485902

Carlsson-Paige, N., McLaughlin, G. B.  og Almon, J. W. (2015). Reading in kindergarten:

Little to gain and much to lose. https://deyproject.files.wordpress.com/2015/01/readinginkindergarten_online-1.pdf

Gray, P. (2013). Free to learn: Why unleashing the instinct to play will make our children happier. More self-reliant, and better students for life. Basic Books.

Hofferth, S. L. og Sandberg, J. F. (2001). Changes in American children’s time, 1981–1997. Advances in life course research, 6, 193–229.

Miller, J. (2018). The difference a year makes. The Harvard Gazette. https://news.harvard.edu/gazette/story/2018/11/when-starting-school-younger-children-aremore-likely-to-be-diagnosed-with-adhd-study-says/

O’Neal, H. A., Dunn, A. L. og Martinsen, E. W. (2000). Depression and exercise.

International Journal of Sport Psychology, 31(2), 110–135..

Paley, V. G. (2009). You can’t say you can’t play. Harvard University Press.

Robert Wood Johnson Foundation. (2003). Healthy schools for healthy kids. https://www.rwjf.org/en/library/research/2003/01/healthy-schools-for-healthy-kids.html

Suggate, S. P., Schaughency, E. A. og Reese, E. (2013). Children learning to read later catch up to children reading earlier. Early Childhood Research Quarterly, 28(1), 33-48. https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0885200612000397

Yurich, G. (E.d). Let’s stop stealing time from children. https://www.1000hoursoutside.com/blog/lets-stop-stealing-time-from-children?fbclid=IwAR0 -PuFiKPuLNtgjRMF0EFzBnHp6YoL9KJAhCG_NbUSEXfoyvmO0GJGKgP0