Færslur

Það er leikur að læra

Höfundur er Helena Sjörup Eiríksdóttir, nemandi í leikskólakennarafræðum við Háskólann á Akureyri

Áhugi minn á leikskólakennarastarfinu kviknaði þegar ég var barn, mér þótti gaman að vera í kringum börn og gekk vel að passa börn annarra. Þegar ég gekk fram hjá leikskólanum á leið heim úr skóla fannst mér alltaf svo mikið líf og fjör þar. Ég var hins vegar ekkert búin að ákveða hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór, framhaldsskólalífið kveikti ekki neinn sérstakan áhuga hjá mér og ég fann mig illa þar og ákvað að fara sem au-pair til Danmerkur.

Eftir heimkomu fór ég aftur í skóla og ekki leið á löngu þar til ég var farin að vinna í leikskóla. Þar fann ég fljótt að ég var á réttri hillu. Ég fann að ég náði vel til barnanna og mér gekk vel að ráða við þau verkefni sem mér voru falin. Samstarfsfólk mitt leiðbeindi mér og sá hvað í mér bjó og hvatti mig til þess að sækja mér menntun og efla sjálfa mig sem kennara. Það má því segja að sjálfstraust mitt í starfi hafi aukist við áhuga þeirra kennara sem ég starfaði með og að sjá þær vinna faglegt og flott starf kveikti skólaáhugann á ný. Ég hóf því ferlið að læra leikskólaliðann í Borgarholtsskóla þar sem ég var ekki komin með nægilegar margar einingar upp í fullgilt stúdentspróf. Þar fann ég mig, áfangarnir spennandi, námsefnið heillandi og ég var staðráðin í því að nú væri ég komin á rétta hillu í lífinu. Eftir útskrift sótti ég um inngöngu í Háskólann á Akureyri og hóf blessunarlega þetta frábæra og skemmtilega nám haustið eftir.

Námið í Háskólanum á Akureyri hefur reynst mér vel og hefur gert mig að öflugri og betri kennara. Sýn mín á kennsluhætti og starfið hefur breyst með náminu þar sem þekking og fagmennska mín hefur aukist. Námið er fjölbreytt og hefur undirbúið mig vel fyrir störf á vettvangi. Ég tel sérstaklega að störf á vettvangi undir leiðsögn reynds kennara skipti sköpum. Í kennaranáminu í HA er lögð rík áhersla á fjölbreytt vettvangsnám og æfingakennslu, þar sem við förum sjaldan og helst aldrei aftur í sömu skólana. Það er gert til þess að við kynnumst eins fjölbreyttum og ólíkum stefnum og starfi og hægt er. Fyrirkomulag og uppsetning vettvangsnáms og æfingakennslu í HA hefur verið gríðarlega mikill lærdómur fyrir mig, ég hef séð margt og kynnst ólíkum stefnum þar sem ég hef farið í vettvangsnám og æfingakennslu á fjórum ólíkum leikskólum víðs vegar á landinu. Ég hef verið í leikskóla sem er með lágt hlutfall af faglærðum leikskólakennurum en einnig þar sem stór hluti starfsfólks er faglært starfsfólk. Ég hef því séð og upplifað muninn sem verður á starfinu eftir fjölda fagfólks.

Í kennaranáminu í HA er lögð rík áhersla á fjölbreytt vettvangsnám og æfingakennslu, þar sem við förum sjaldan og helst aldrei aftur í sömu skólana.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið, það leggur grunninn. Námið og sú reynsla sem börn fá þar getur haft varanleg áhrif á bæði lífsgæði og námsframvindu þeirra til frambúðar. Það er því afar mikilvægt að efla og hugsa um innviði og uppbyggingu leikskólanna. Við getum ekki sett allt of mörg börn í sama rýmið, við þurfum að huga að plássi fyrir hvert barn til þess að þau geti unað sér í leik og starfi. Þá þarf að huga að hljóðvist og góðri starfsaðstöðu fyrir kennara. Það þarf aukið fjármagn til þess að við getum haldið áfram að hugsa um yngstu kynslóðirnar hverju sinni. Námsumhverfið þarf að vera boðlegt fyrir bæði börn og kennara.

Ein stærsta áskorun okkar í dag er hve fáir faglærðir starfsmenn starfa innan leikskólans. Fyrir einhverja er það kannski ekki stórmál og hugsa með sér: „Getur ekki hver sem er unnið í leikskóla og er ekki frábært að einhver vilji taka það að sér?“ Þetta er vandamál sem þarf að bregðast við. Akureyri er það sveitarfélag sem stendur einna best hvað varðar fagmenntaða starfsmenn innan veggja leikskólanna og það er magnað að upplifa og sjá hversu miklu máli það skiptir í raun og veru. Það eru ekki bara þrír til fjórir starfsmenn í húsinu sem hafa réttindi til þess að taka EFI, TRASA eða gera HLJÓM-2.

Þegar skortur er á fagmenntuðu starfsfólki innan veggja skólans, glatast ýmislegt og mikilvægar kennsluaðferðir gleymast og jafnvel týnast. Það eru ekki allir sem kunna að greina og hafa vitneskju til að takast á við hin ólíku mál sem upp koma í daglegu amstri. Þar sem lítið er um fagfólk, eykst álagið á þeim fáu faglærðu sem eru til staðar. Ég þekki af eigin reynslu að aðeins deildarstjóri sé faglærður en allir aðrir ófaglærðir. Við þær aðstæður þarf deildarstjórinn að nýta sinn undirbúning til að vinna að málefnum sem tengjast öllum barnahópnum. Allt annað er uppi á teningnum í leikskóla sem er vel mannaður af fagfólki og allir starfsmennirnir geta skipt með sér undirbúningi og öðrum verkum. Undirbúningstími er mjög mikilvægur og það er ekkert í öllum leikskólum sem fólk er að fá hann, meðal annars vegna manneklu. Það er mikilvægt að undirbúningstímar séu heilagir og að fólk geti gengið að þeim í leikskóla eins og er innan grunnskólans.

Undirmönnun er stórt vandamál í leikskólum. Ég tel mikilvægt að leikskólar hafi meira svigrúm til þess að ráða fleira afleysingafólk og ef það er ekki hægt þarf að borga fyrir álagið sem fylgir undirmönnun. Ég hef heyrt að í grunnskólum fái kennarar val um að taka að sér forfallakennslu og fá greitt fyrir hana, ekki er þetta svona hjá okkur í leikskólanum. Það má því með sanni segja að það þarf að gera stórsókn þegar kemur að leikskólamálum, bæði þegar kemur að vinnuaðstæðum og faglegu starfi.

Það er mikilvægt að undirbúningstímar séu heilagir og að fólk geti gengið að þeim í leikskóla eins og er innan grunnskólans.

Mér þykir frábært að stjórnvöld boði til stórsóknar í menntamálum og að lögð sé áhersla á nýliðun og fjölgun kennaranema. Sérstaklega tek ég því fagnandi að starfsnáminu sé ætlað að undirbúa nemendur frekar undir störf á vettvangi, sem ég tel sérstaklega mikilvægt. Það er þó margt sem þarf að velta fyrir sér í tengslum við þessa leið.

  • Af hverju er svona mikill munur á því að vera læra að verða leikskólakennari og grunnskólakennari? Leikskólakennaranemi þarf að vera fleiri vikur á vettvangi, fær ekki sömu frí og nemi í grunnskóla (vetrarfrí, jól og páskar). Við erum ráðin í eitt skólaár og fáum fyrir það sömu ECTS einingarnar. Ég er ekkert síðri kennari heldur en stúlkan sem hefur setið mér við hlið í námskeiðum síðastliðin fjögur ár, þótt hún sé að læra að verða grunnskólakennari.
  • Einnig þykir mér sérkennilegt að dæmi séu um það að starfsnemar í grunnskólum gegni stöðu umsjónarkennara. Mér finnst ekki vera í boði að vera nemi með mannaforráð. Ábyrgðin sem því fylgir, ætti ekki að vera lögð á herðar nema sem á samkvæmt markmiðum starfsnámsins að fá leiðsögn og undirbúning undir kennarastarfið. Meginmarkmið og tilgangur námsins á að vera sá að efla stöðu nemans og undirbúa hann undir störf á vettvangi þegar að því kemur. Sé hann vel undirbúinn dregur það vonandi úr brotthvarfi nýliða. Það má því velta því upp hver raunverulegur tilgangur starfsnámsins sé? Eru það markmiðin sem ég hef nefnt eða er verið að bjarga kennaraskorti í ákveðnum sveitarfélögum?

En út í aðra sálma. Ég tel að við getum gert mun betur þegar kemur að viðhorfi gagnvart ófaglærðum sem eru fjölmargir bæði flottir og góðir starfsmenn í leikskólum landsins. Það er faglærðra og stjórnenda að hvetja þá áfram í nám til að efla þá enn frekar. Hér tala ég af reynslunni. En það er ekki einungis leikskólinn sjálfur og starfsfólk hans sem getur haft skapandi áhrif í þeim málum heldur eru það sveitarfélögin sem þurfa að grípa boltann og ýta á eftir. Tökum dæmi. Margir kennaranemar eru starfandi og fá frí í vinnunni til að geta mætt í námslotur sem eru mikilvægur þáttur í náminu. Þar lærum við hluti sem ekki er hægt að læra í gegnum bók eða tölvuna – heldur þurfum að vera í rauntíma. Það getur t.d. haft mikil áhrif að fá greidd laun í lotum sem eru fjórir til átta dagar á hverju skólamisseri. Ekkert rosalegur peningur í stóra samhenginu fyrir sveitarfélagið en skiptir sköpum fyrir náms-/starfsmanninn sem er að reka heimili og á kannski ekki maka til að aðstoða sig við útgjöldin.

Það sem mér finnst skemmtilegast við leikskólakennarastarfið er að engir tveir dagar eru eins, ég sem kennari hef áhrif á mótun starfsins og þar af leiðandi á nám barnanna. Ég sé mig í mikilvægu starfi, sem skiptir máli í lífi barna og það má því segja að það munar um mig og mína menntun. Börnin fullvissa mig á hverjum degi um hversu mikilvæg ég er og hversu mikið ég get kennt þeim með því að vera til staðar, hlusta og leiðbeina þeim. Það er ÉG sem leikskólakennari sem er að hafa áhrif á nám og líf þeirra barna sem ég vinn með. Ég er að kenna félagsleg samskipti, gagnrýna hugsun, skilning og virðingu fyrir náunganum, allt í gegnum leik í þeim tilgangi að gera börnin að virkum þátttakendum í samfélaginu. ÉG get því sagt það með vissu að ég er MIKILVÆG.

Ég sé mig í mikilvægu starfi, sem skiptir máli í lífi barna og það má því segja að það munar um mig og mína menntun.

Þrátt fyrir að vilja vera jákvæð og bjartsýn og benda á góða hluti sem verið er að ráðast í er staðreyndin sú að starfsaðstæður þarf að bæta og launin þurfa að hækka. Á meðan launin eru eins og raun ber vitni, verður einungis erfiðara og erfiðara að fá ungt fólk til þess að vilja mennta sig sem kennara. AÐ LOKUM: Það er kominn tími til að samfélagið geri sér grein fyrir því að leikskólinn er raunverulega fyrsta skólastigið sem leggur grunninn að öllu því sem koma skal. Ef ekki verður hugsað um það að halda fagfólkinu í leikskólanum þá gætum við staðið frammi fyrir því að leikskólinn, fyrsta skólastigið, breytist í geymslu.

Greinin birtist upphaflega í Skólavörðunni.