Færslur

„Er þetta Ísland?“ - Úr samtali leikskólabarna á Dalvík

Leikskólakennari – besta starf í heimi!

Höfundur er Magnús Hilmar Felixson, leikskólakennari. 

Starf á leik­skólum er gef­andi starf sem færir manni ný ævin­týri á hverjum degi þar sem eng­inn dagur er eins. Börn eru sannir gleði­gjafar og sýna manni alltaf hvernig þeim raun­veru­lega líður hverju sinni. Þau eru hrein­skilin og sjá heim­inn með aðeins öðru­vísi augum en við sem erum full­orð­in. Þessi stað­reynd gerir það að verkum að starfið er áhuga­vert, skemmti­legt, krefj­andi og stundum erfitt. Starfið gefur af sér stundir og atvik sem lifa með manni í minn­ing­ar­bank­anum og gleðja.

Starf á leik­skólum er eins og áður sagði skemmti­legt og krefj­andi í bland, verk­efnin eru fjöl­breytt og nem­enda­hóp­ur­inn líka. Allt þetta kallar á mik­il­vægi þess að á leik­skólum starfi áhuga­samt og hæft fólk, karlar og kon­ur. Karl­menn hafa verið í miklum minni­hluta starfs­manna en eru mik­il­vægir inn á leik­skólum og hafa rétt eins og konur margt fram að færa í leik­skóla­kennslu. Þeir eru fyr­ir­myndir drengja og stúlkna, taka þátt í að útrýma staðalí­myndum kynj­anna og auka á fjöl­breytni leik­skól­anna.

Þegar kemur að starf­inu í leik­skólum er það mitt mat að það séu for­rétt­indi í sjálfu sér að velja sér ævi­starf við það að starfa með börnum í leik og starfi. Fá að fylgj­ast með þeim þroskast, takast á við ólík verk­efni, sigra og ósigra er það sem gerir starfið frá­bært. Það að geta haft áhrif á hverjum degi á nám og þroska barns og sjá síðar afrakstur sinnar vinnu, hvort sem það er í starf­inu sjálfu eða bara út í sam­fé­lag­inu, sam­vinnan við for­eldra sem síðar koma til manns á förnum vegi og þakka manni fyrir það sem maður hefur gert fyrir barnið þeirra í leik­skól­an­um, það að maður hafi haft áhrif í lífi ann­ara til hins betra er til­finn­ing sem gefur þessu starfi mikið gildi.

Mitt mat er að starf í leik­skólum sé besta starf í heimi og hef ég þess vegna mik­inn áhuga á því að aug­lýsa það fyrir áhuga­sömum og fá fleiri með í gleð­ina. Þetta gerir ég meðal ann­ars í gegnum sam­fé­lags­miðla undir nafn­inu Járn­karl­arnir ásamt sam­starfs­manni mínum honum Eysteini Sindra Elvars­syni. Þar sýnum við hvað við erum að fást við á leik­skól­anum og setjum fram skoð­anir okk­ar, ræðum hvað betur mætti fara og sýnum ýmis­konar hug­myndir að skemmti­legum verk­efn­um.

Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum