Færslur

Menntun er ekki gripin upp úr götunni

Höfundur er Ingimar Ólafsson Waage, aðjúnkt, myndlistamaður og starf­andi fag­stjóri sjón­lista í list­kennslu­deild Listaháskóla Íslands.

Flestum er mik­il­vægi mennt­unar ljóst. Menntun er horn­steinn sam­fé­laga, það er með menntun sem þjóðum tekst að ná tökum eigin vel­ferð, taka sér á hendur ábyrgð á eigin til­veru; menntun er þannig lífs­nauð­syn­leg ef þjóðir vilja hafa eitt­hvað um það að segja hvernig fram­tíð þeirra þró­ast.

Menntun er þó ekki gripin upp úr göt­unni, hún vex ekki á trjánum og við getum ekki reitt okkur á að mennt­unin komi með far­fugl­unum yfir haf­ið. Við verðum að vinna sjálf að henni og þar gegna kenn­arar afar mik­il­vægu hlut­verki – svo ekki sé meira sagt!

En hvers vegna ætti ungt fólk að sækj­ast eftir því að verða kenn­ar­ar?

Þrjár víddir kenn­ara­starfs­ins

Senni­lega eru svörin við þeirri spurn­ingu jafn mörg og starf­andi kenn­arar en mig langar til að nefna þrjú mik­il­væg atriði sem geta skipt máli þegar ákvarð­anir eru teknar um fram­tíð­ar­starf­ið.

Það má hugsa um kenn­ara­starfið frá þremur mis­mun­andi sjón­ar­hornum sem hvert um sig getur verið mik­il­vægt inn­legg í ákvarð­anir sem tengj­ast vali á fram­tíð­ar­starf­inu og þeirri menntun sem skiptir máli í því sam­hengi.

Drif­kraft­ur­inn

Fyrsta ástæð­an, og kannski hin aug­ljós­asta í hugum margra, er fag­lega hlið­in. Áhugi á til­teknu fagsviði er gjarnan drif­kraft­ur­inn hjá þeim sem kjósa að mennta sig til kennslu. Brenn­andi áhugi á íslensku, eðl­is­fræði eða mynd­list fær fólk oft til að hugsa um fagið út frá sjón­ar­hóli miðl­un­ar, að kenna þessar greinar getur dýpkað skiln­ing­inn á þeim og þannig getur lær­dóms­þráin orðið að drif­krafti fyrir þá sem vilja verða kenn­ar­ar. Þessi hugsun á sér djúpar heim­speki­legar rætur því for­vitnin hefur allt frá tímum forn-Grikkja verið aðals­merki hug­suða og vís­inda­manna.

Stuðn­ingur við börn og ung­menni

Önnur ástæðan teng­ist áhug­anum á því að vera þátt­tak­andi í því að styðja börn og ung­menni í því að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Kenn­arar geta þannig veitt nem­endum tæki­færi til að takast á við dýpri og flókn­ari spurn­ingar um mann­lega til­veru; heim­speki­legar spurn­ingar sem snerta vanga­veltur um það hvað hið góða líf feli í sér og hvernig mann­eskj­unni sé kleift að haga lífi sínu þannig að til far­sældar horfi til lengri tíma. Slíkar spurn­ingar eru sið­ferði­legs eðlis og end­ur­spegla mik­il­vægar hug­myndir um mann­kosta­menntun en því má halda fram að raun­veru­leg mark­mið mennt­unar séu einmitt fólgin í því að leit­ast við að verða meiri mann­eskja í anda þess sem Páll Skúla­son benti ítrekað á í skrifum sínum um nám og mennt­un.

Kenn­arar veki nem­endur til umhugs­unar

Þriðja ástæðan á rætur sínar að rekja til áhug­ans á sam­fé­lags­legum mál­efnum og þörf­inni til að láta gott af sér leiða. Þar vega þungt mik­il­vægar spurn­ingar um jafn­rétti, mann­rétt­indi, félags­legt rétt­læti og lýð­ræði.

Skólar gegna afar mik­il­vægu hlut­verki við miðlun sið­ferði­legra gilda en við­horf kenn­ara skipta miklu máli á þeim vett­vangi. Kenn­arar hafa þannig hlut­verki að gegna að vekja nem­endur til umhugs­unar um jafn­rétti kynj­anna, mann­rétt­indi, stöðu ólíkra hópa í bæði í nær­sam­fé­lag­inu og á alþjóða­vísu að ógleymdu lýð­ræð­inu sem horn­steins sam­fé­lags­ins. Lýð­ræði þarfn­ast þess að við séum með­vituð um stöðu þess á hverjum tíma og ein áhrifa­mesta leiðin til þess að við­halda lif­andi lýð­ræði felst í því að setja umræður um lýð­ræði á dag­skrá í skóla­stofum lands­ins.

Ættir þú að verða kenn­ari?

Ef þessar hug­myndir hringja ein­hverjum bjöllum hjá þér er spurn­ing hvort þú ættir ekki að hug­leiða það hvort kennsla eða starf með börnum og ung­mennum geti ekki verið far­sæll starfs­vett­vangur fyrir þig.

Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum.