Færslur

Ekki sitja og bíða og vona

Höfundur er Sveinn Þorgeirsson, aðjúnkt við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík

Starf íþrótta­kenn­ara er í senn fjöl­breytt, krefj­andi og spenn­andi. Hver dagur hefur sínar áskor­anir og sjar­ma, enda bygg­ist kennslan á hæfni í mann­legum sam­skiptum við börn og ungt fólk í mót­un. Í skóla­kerf­inu fáum við ein­stakt tæki­færi til að stíga inn sem jákvæðar fyr­ir­myndir varð­andi heilsu og hreysti frá unga aldri. Á þeim tíma má stuðla að því að ein­stak­lingar móti sér jákvætt við­horf gagn­vart heilsu og hreyf­ingu fyrir lífs­tíð.

Margir sem lesa þennan pistil eiga eflaust áhuga­mál sem teng­ist hreyf­ingu. Þeir geta þá hugsað til þess hvort þeir hafi þurft mikla hvatn­ingu í hvert skipti til að ganga á fjöll, eða fara 18 holur í golfi? Senni­lega ekki, – við gerum þetta vegna þess að athæfið í sjálfu sér gefur okkur svo mikla ánægju. Það er ómögu­legt að meta til fjár þau jákvæðu heilsu­fars­legu áhrif sem hljót­ast af reglu­bund­inni hreyf­ingu sem við getum fengið í gegnum áhuga­mál okk­ar. Áhrif sem við tengjum alla jafna við hjarta og vöðva en eru ekki síður mik­il­væg fyrir heila­starf­semi og tauga­kerfið okk­ar. Rann­sóknir sýna okkur skýrt þessi tengsl, enda ekki að ástæðu­lausu að Alþjóða­heil­brigð­is­stofn­unin (WHO) leggur til klukku­stund af hreyf­ingu á dag fyrir börn og hálf­tíma fyrir full­orðna og eldra fólk.

Góðir íþrótta­kenn­arar leika lyk­il­hlut­verk í því að kynna mögu­leik­ana á þátt­töku í skipu­lögðu íþrótta­starfi, aðstöðu til heilsu­ræktar og úti­vistar í nærum­hverf­inu fyrir nem­end­um. Hver veit hversu mörgu íþrótta­fólki hefur verið „ýtt“ inn á réttar brautir af kenn­ara með þekk­ingu og inn­sæi sem kemur auga á hæfi­leika í leyn­um? „Heyrðu vin­ur, þetta var rosa­legt stökk hjá þér, – hefur þú prófað frjálsar íþrótt­ir?“. Það er nefni­lega svo margt sem vinnst með því að koma börnum af stað í hreyf­ingu og kveikja áhuga því meiri fjöl­breytt hreyf­ing getur af sér meiri hreyfi­færni og betra lík­am­legt ástand, sem aftur leiðir til meiri hreyf­ing­ar. Þannig getum við beint unga fólk­inu okkar inn á brautir þar sem hreyf­ing er sjálf­sagður þáttur af heil­brigðum lífs­stíl til fram­tíð­ar.

Hugs­aðu þér alla hæfn­ina sem kenn­arar læra í námi og í starfi. Fyrir utan að vera sér­fræð­ingar í sínum fögum þurfa þeir að vera ein­stak­lega skipu­lagð­ir, sann­gjarnir og hvetj­andi. Öðru­vísi gengur kennslan ein­fald­lega ekki upp. Íþrótta­fræð­ingar með meistara­gráðu í kennslu­fræði eru mjög eft­ir­sóttir starfs­kraftar bæði í kennslu og þjálfun enda byggja þeir á frá­bærum grunni þekk­ingar á lík­am­anum og hreyf­ingum og þeim aðferðum sem best henta til kennslu hverju sinni.

Ég vil hvetja þig til að kynna þér ræki­lega kosti þess að læra íþrótta­fræði og taka kennslu­rétt­indi til að ger­ast íþrótta­kenn­ari.

Greinin birtist upphaflega í Kjarnanum.