Komdu að kenna!
Kennarastarfið felur í sér tækifæri til að kveikja neista og virkja börn og ungmenni svo þau fái notið krafta sinna og styrkleika. Kennarar fylgjast með börnum og ungmennum vaxa, fræðast, skapa, skilja, vinna saman og leika. Starf kennarans er fjölbreytt teymisvinna og starfstækifærin eru um allt land – og allan heim.
Ef þú velur kennslu þá er þrennt bókað:
- Þú vinnur í þéttu teymi með kennurum og fólki með fjölbreyttan bakgrunn
- Það verður alltaf líflegt á þínum vinnustað
- Vélmenni munu aldrei koma í þinn stað!
Hvernig kennari vilt þú verða?
Fjórir háskólar bjóða upp á kennaranám á Íslandi og valkostirnir eru nánast endalausir. Viltu verða leikskólakennari? Veldu úr þremur háskólum! Ertu með BA eða BS gráðu? Veldu úr þremur háskólum til að bæta við þig kennslu- og menntunarfræði á meistarastigi! Viltu verða listgreinakennari eða íþróttakennari? Þú getur valið úr mörgum leiðum!
Möguleikar í kennaranámi hafa aldrei verið opnari: Kennaranemar útskrifast með leyfisbréf sem veitir þeim heimild til kennslu á öllum skólastigum og á lokaárinu geta þeir sinnt launuðu starfsnámi, ef þeir starfa í skóla. Í meistaranáminu geta þeir svo valið um að skrifa lokaritgerð eða dýpka sig með námskeiðum í kennslu- og menntunarfræði.