Gæði skólastarfs og menntun barna er undirstaða velferðar hverrar þjóðar. Þar eru kennarar í lykilhlutverki. Fjórir háskólar bjóða upp á kennaranám og margar leiðir eru færar til að verða kennari í leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla eða listaskóla.
Kennaranemar velja sérhæfingu í námi sínu en halda svo í raun áfram að læra alla starfsævina. Fá störf bjóða upp á jafn fjölbreytta starfsþróun og teymisvinnu, á jafn líflegum og fjölmennum vinnustöðum.
Kennaranemar læra um nám og þroska, uppeldi og heimspeki, sjálfbærni og listir, félagsfræði og vísindi, bókmenntir, hreyfingu og leikræna tjáningu, úti sem inni. Svo fátt eitt sé nefnt!
Lokaár kennaranáms getur verið launað starfsnám
Vettvangsnám er stór hluti kennaranáms og á lokaárinu geta kennaranemar verið í launuðu starfsnámi í skólum, séu störf í boði. Ný lög um kennaranám fjölga tækifærum kennara til muna því þeir fá eitt leyfisbréf með heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þá geta kennaranemar í meistaranámi valið um að skrifa lokaritgerð eða dýpka sig í tilteknum viðfangsefnum með námskeiðum. Allir sem ljúka meistaragráðu (120e) geta sótt um hvatningarstyrk að upphæð 800.000 króna.