HVERNIG VERÐ ÉG KENNARI?

Skólastofan er vettvangur fjölbreytileikans

Kennaranám er eins fjölbreytt og starf kennarans! Það eru margar leiðir til þess að verða kennari.  Sumt fólk hefur stefnt á starfið alla ævi og fer í fimm ára kennaranám, á meðan annað fólk hefur annan bakgrunn og bætir við sig kennsluréttindum til þess að fá tækifæri til að miðla sérkunnáttu sinni til framtíðarkynslóða.  Hvaða leið sem þú ferð, þá er áfangastaðurinn sennilega skólastofan (hvort sem hún er úti eða inni!), þar sem þú munt hafa áhrif á mótun ungs fólks í uppvexti þeirra; eitthvað sem er bæði stórskemmtilegt og gefandi! 

Hvað langar þig að verða?

Kennaranám eftir námsbrautum

Leikskólakennari

Viltu vinna með ofurhetjum á hverjum degi? Leikskólakennarar skapa vettvang fyrir börn til að blómstra á fyrsta skólastiginu. Ertu að leika þér allan daginn? Já, svo sannarlega! En ertu að vinna faglegt starf sem hefur jákvæð áhrif á lífsgæði barna og uppvöxt? Svo sannarlega líka! Leikskólakennarastarfið er fyrir konur og karla og allt þar á milli sem dreymir um að skipta máli og móta framtíðina.

Hvernig verð ég leikskólakennari?

Leikskólakennarafræði er fimm ára nám. Námið veitir leyfisbréf til að starfa í leikskóla.

Ertu með bachelor-gráðu?

Ef þú hefur lokið bakkalárprófi í námi sem tengist uppeldisfræði eða námssviðum leikskólans geturðu farið í Menntunarfræði leikskóla sem er meistaranám og veitir leyfisbréf til að starfa í leikskóla.

Viltu byrja smátt og auka svo við þig?

Einnig er hægt að taka 120 eininga grunndiplómu í leikskólafræði. Að loknu námi getur nemandi útskrifast með diplómu og sótt um áframhaldandi nám til bakkalárgráðu í leikskólakennarafræði.

Ertu með listkennsluréttindi?

Ef þú hefur útskrifast með listkennsluréttindi frá listkennsludeild LHÍ geturðu bætt við þig 30 eininga diplómanámi á meistarastigi í leikskólakennslufræðum sem veitir leyfisbréf til að starfa í leikskóla. Námið er eitt ár, kennt í listkennsludeild LHÍ og skipulagt á þá vegu að nemendur geti tekið það með starfi.

 • MARKMIÐ

  Að nemar öðlist skilning á menntunarhlutverki leikskóla og starfsemi þeirra, kenningum um uppeldi og menntun ungra barna og þjálfist sem fagfólk í leikskólastarfi. Í náminu er lögð áhersla á grunnþætti menntunar, námssvið leikskólans, leik sem megin náms- og þroskaleið og réttindi barna.

 • VIÐFANGSEFNI

  Forysta, skólaþróun og mat á skólastarfi, grunnþættir og gildi, menntunarfræði og leikskólastarf, nám, listir og sköpun, menntun án aðgreiningar og upplýsingatækni í skólastarfi.

Grunnskólakennari

Ef þú ert rétta manneskjan til að kveikja áhuga barna á samfélagi og vísindum ættir þú að skoða grunnskólanám. Íslensk börn eru 10 ár í grunnskóla og vafalaust eru það árin sem eiga hvað mestan þátt í mótun þeirra fyrir lífstíð. Vilt þú eiga þátt í að skapa öfluga einstaklinga og búa þau undir lífið?  Aflaðu þér upplýsinga um nám í grunnskólakennslu!

Hvernig verð ég grunnskólakennari?

Grunnskólakennaranám er fimm ára nám. Námið veitir leyfisbréf til að starfa í grunnskóla.

Ertu með bacehlor-gráðu?

Námið er ætlað þeim sem lokið hafa bakkalárprófi (BA- eða BS-prófi) í einhverri kennslugrein grunnskólans. Þessar greinar eru t.d. grunnskólakennarafræði, uppeldis- og menntunarfræði, sálfræði, eða faggreinar sem tengjast námssviðum aðalnámskrár grunnkóla, s.s. listir eða náttúruvísindi. Námið er 120 einingar, veitir M.Ed, MA eða M.Art.Ed gráðu og tekur að jafnaði tvö ár.

 • MARKMIÐ

  Að undirbúa nema fyrir kennslu í grunnskóla, umsjón með nemendahópi, samstarf heimila og skóla og þátttöku í Þróunarstarfi. Í náminu er grunnur lagður að þekkingu á kennsluháttum og hugmyndum manna um nám. Áhersla er lögð á að hver kennaranemi geti mótað námið eftir áhugasviði sínu og valið sér leiðir til sérhæfingar.

 • VIÐFANGSEFNI

  Allir grunnskólakennaranemar taka námskeið í íslensku, stærðfræði og nokkrum öðrum kennslugreinum grunnskólans og sérhæfa sig í einni þeirra. Í fimm ára kennaranámi geta nemar valið um að sérhæfa sig í kennslu yngri barna eða í faggreinakennslu með sérhæfingu í völdum námsgreinum grunnskólans.

Framhaldsskólakennari

Í framhaldsskólum er farið dýpra í efnið og þar gefst þér kostur á að grúska með nemendum þínum og uppgötva heim tungumála, raungreina, hugvísinda, list- og verkgreina eða annars áhugasviðs þíns.  Framhaldsskólanemar eru upplýstir og klárir og spyrja oft erfiðra spurninga, en þannig gefst þér einmitt færi á að láta ljós þitt skína!

Hvernig verð ég framhaldsskólakennari?

Framhaldsskólakennaranám er sérstaklega skipulagt fyrir þá sem hafa þegar lokið bakkalárgráðu og vilja afla sér kennsluréttinda í faggrein sinni.

Að námi loknu getur nemi sótt um leyfisbréf. Leyfisbréfið veitir einnig heimild til kennslu á sérsviði í 8.–10. bekk grunnskóla.

Ef þú ert með bakkalárgráðu geturðu einnig sótt meistaranám í listkennslu- eða kennslufræðum í listkennsludeild LHÍ, útskrifast um með kennsluréttindi í grunnskóla og sótt um leyfisbréf til kennslu á fagsviði þínu í framhaldsskólum.

Ertu meistari?

Einnig er í boði viðbótardiplóma til kennsluréttinda fyrir þá sem lokið hafa meistaraprófi í kennslugrein framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að námið sé tekið á einu skólaári en þó er mögulegt að skipta því á tvö skólaár.

 • MARKMIÐ

  Að búa nemendur, sem þegar hafa lokið gráðu á sínu kjörsviði, undir það að miðla sinni sérfræðiþekkingu til framhaldsskólanema.  Í náminu er þekking á kjörsviði nemandans dýpkuð, ásamt því að þjálfa nemandann í fjölbreyttum kennsluháttum, menntunarfræði og ýmsum tólum sem nýtast nemandanum í kennslu.

 • VIÐFANGSEFNI

  Dýpkun á kjörsviði nemandans, kennslufræði, vettvangskennsla og ýmsir áfangar sem dýpka skilning á umhverfi og lífi ungmenna.

Listgreinakennari

Viltu virkja sköpunarkraftinn í börnum og ungmennum?  Ef þú vilt miðla veröld listarinnar til ungs fólks ættirðu að skoða listgreinakennslu.

Hvernig verð ég listgreinakennari?

HÍ býður upp á 5 ára nám í listgreinakennslu sem lýkur með M.Ed. gráðu í listkennslu sem veitir leyfisbréf.

Ef þú ert þegar með bakkalárgráðu í listgrein getur þú farið í meistaranám í LHÍ, sem býður upp á diplómanám og meistaranám á meistarastigi. Náminu lýkur með MA eða M.Art.Ed gráðu. Nemendur útskrifast um með kennsluréttindi í grunnskóla og geta sótt um leyfisbréf til kennslu á fagsviði sínu í framhaldsskólum.

 • MARKMIÐ

  Nám í listkennslu miðar að því að mennta listafólk til kennslu ásamt því að efla með því færni og fræðilegan grunn til að miðla þekkingu sinni á ólíkum vettvangi.

 • VIÐFANGSEFNI

  Námið er fjölbreytt og byggir á námskeiðum í kennslu-, uppeldis- og sálarfræði, heimspeki og félagsfræði, samhliða þjálfun í kennslu og miðlun listgreina og verkefna á vettvangi bæði innan skólakerfisins og utan þess.

Íþróttakennari

Ertu með heilsu á heilanum?  Ef þú ert rétta manneskjan til að hvetja börn og ungmenni til að huga að heilsunni, hreyfa sig og efla sál og líkama ættir þú að skoða nám í íþróttakennslu.

Hvernig verð ég íþróttakennari?

BS-nám í íþrótta- og heilsufræði er fræðilegt, verklegt og starfstengt 180 eininga nám.

M.Ed.-nám í íþrótta- og heilsufræði er ætlað þeim sem stefna að því að starfa við íþróttakennslu í grunn- eða framhaldsskólum. Námið veitir leyfisbréf til að starfa í grunn- og framhaldsskóla.

 • MARKMIÐ

  Í náminu er fjallað um íþrótta- og kennslufræði með áherslu á heilsuþjálfun. Lögð er áhersla á hvernig auka megi lífsgæði með skipulagðri hreyfingu fyrir einstaklinga á öllum aldri og á mismunandi getustigum.

 • VIÐFANGSEFNI

  Líffæra- og lífeðlisfræði, þjálfunarlífeðlisfræði, líkams-, heilsuræktar- og íþróttaþjálfun, hreyfingafræði, næringarfræði, heilsufræði, félagsfræði, kennslufræði, sálfræði, íþróttasálfræði, útivist og ýmsar íþróttagreinar.

Hvar viltu læra?

Kennaranám eftir skólum

Háskólinn á Akureyri

Kennaranám HA til BEd-gráðu veitir traustan undirbúning til starfa í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Markmiðið er að veita þekkingu á undirstöðuþáttum kennslu. Jafnframt að leggja grunn að þeirri færni sem þarf til að þróa og móta skóla, iðka rannsóknir og stunda frekara nám.

Námsbrautir

Leikskólakjörsvið

Grunnskólakjörsvið

Íþróttakjörsvið.

Lengd og gráða

Kennarafræði BEd – 3 ára nám, 180 ECTS einingar.

Menntunarfræði MEd: Kennsluréttindi – 2 ára nám, 120 ECTS einingar.

Menntunarfræði diplóma: Kennsluréttindi – 1 ára nám, 60 ECTS einingar.

 • UMSÓKNARFRESTUR

  Tekið er við umsóknum frá miðjum mars til 5. júní ár hvert.

 • HEIMILISFANG

  Háskólinn á Akureyri

  Norðurslóð 2

  600 Akureyri

  unak@unak.is

  460 8000

Háskóli Íslands

Boðið er upp á kennaranám í öllum fjórum deildum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Kennaranám veitir traustan undirbúning fyrir lifandi starf sem sífellt býður upp á ný og mikilvæg viðfangsefni. Kennaranemar öðlast grunnþekkingu á námi og kennslu og fá tækifæri til að sérhæfa sig á ólíkum sviðum í samræmi við eigin áhuga. Hægt er að velja margar ólíkar leiðir til að verða kennari í leik-, grunn- eða framhaldsskóla.

Námsleiðir

Leikskólakennari

Grunnskólakennari

Framhaldsskólakennari

Íþróttakennari

Sérkennslufræði

Kennsluréttindi

Lengd námsins

BA-, BS- og B.Ed.-nám er 180 eininga nám sem tekur að jafnaði þrjú ár.

MA-, MS- og M.Ed.-nám er 120 einingar og tekur að jafnaði tvö ár.

Gráða

Kennaranám er fimm ára fræðilegt og starfstengt nám, sem skiptist í 180 eininga BA-, BS- eða B.Ed.-nám og 120 eininga M.Ed.-nám, og veitir leyfisbréf í leik-, grunn- eða framhaldsskóla. Miðað er við að nemendur sem hefja meistaranám hafi lokið grunnnámi með fyrstu einkunn.

Unnt er að taka samfellt fimm ára kennaranám á Menntavísindasviði eða ljúka fyrst bakkalárprófi (BA- eða BS-próf) á námssviði eða kennslugrein skólanna og bæta svo við sig tveggja ára kennsluréttindanámi.

 • UMSÓKNARFRESTUR

  Frestur til að sækja um framhaldsnám er til 15. apríl og um grunnnám til 5. júní.

 • HEIMILISFANG

  MENNTAVÍSINDASVIÐ HÍ

  Stakkahlíð – Enni

  Opið frá kl. 8.15 -15.00 alla virka daga

  Sími 525 5950

  menntavisindasvid@hi.is

Háskólinn í Reykjavík

Háskólinn í Reykjavík býður upp á nám í heilsuþjálfun. Í náminu er fjallað um íþrótta- og kennslufræði með áherslu á heilsuþjálfun. Lögð er áhersla á hvernig auka megi lífsgæði með skipulagðri hreyfingu fyrir einstaklinga á öllum aldri og á mismunandi getustigum. MEd-gráðan veitir kennsluréttindi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Námsbrautir

Heilsuþjálfun og kennsla MEd

Markhópar

Ætlast er til að nemendur hafi lokið grunnnámi í íþróttafræði, sjúkraþjálfun, heilsuþjálfun, líffræði, menntavísindum eða öðrum skyldum greinum.

Gráða

MEd-gráða í íþróttafræði er tveggja ára meistaranám og er 120 ECTS

 • UMSÓKNARFRESTUR

  Opið fyrir umsóknir frá 5. febrúar til og með 30. apríl – fyrir haustönn

  Opið fyrir umsóknir frá 15. október til og með 5. desember – fyrir vorönn

 • HEIMILISFANG

  Menntavegi 1

  101 Reykjavík

  thd@ru.is

  599 6471

Listaháskóli Íslands

Nám í listkennslu miðar að því að mennta listafólk til kennslu ásamt því að efla með því færni og fræðilegan grunn til að miðla þekkingu sinni á ólíkum vettvangi. Námið er fjölbreytt og byggir á námskeiðum í kennslu-, uppeldis- og sálarfræði, heimspeki og félagsfræði, samhliða þjálfun í kennslu og miðlun listgreina og verkefna á vettvangi bæði innan skólakerfisins og utan þess.

Námsleiðir

Í listkennsludeild LHÍ eru þrjár námsbrautir:

 • meistaranám í listkennslufræðum (MA / M.Art.Ed),
 • meistaranám í kennslufræðum (MA / M.Ed) og
 • diplómanám í leikskóla- eða listkennslufræðum (diplóma).

Inntak námsins miðar að því að þjálfa leiðtogafærni í kennslu þar sem fólk vinnur saman og samhliða að kennslufræðilegum úrlausnarefnum bæði innan veggja LHÍ og einnig úti á fagvettvangi. Námið er nemendamiðað og lýkur með meistaragráðu.

Innan námsbrautanna þriggja eru samtals fimm námsleiðir:​

 • Tveggja ára, 120 eininga meistaranám í listkennslu. (MA / M.Art.Ed).
  Fyrir fólk með bakkalárgráðu í listgrein
 • Tveggja ára, 120 eininga meistaranám í kennslufræðum. (MA / M.Ed).
  NÝ NÁMSLEIÐ, fyrir fólk með bakkalárgráðu í öðru en listgreinum.
 • Eins árs, 60 eininga diplómanám til kennsluréttinda. (Diplóma).
  Fyrir fólk sem lokið hefur meistaragráðu í sinni listgrein.
 • Eins árs, 30 eininga diplómanám í leikskólakennslufræðum. (Diplóma).
  Fyrir fólk sem hefur listkennsluréttindi og vill bæta við réttindum á leikskólastigi.
 • Þriggja ára, 180 eininga meistaranám í listkennslu með aðfararnámi. (MA / M.Art.Ed).
  Fyrir fólk sem hefur lokið a.m.k. 120 einingum á bakkalárstigi í listgrein.

Tónlistardeild Listaháskóla Íslands býður upp á meistaranám í söng- og hljóðfærakennslu Brautin er ætluð þeim sem lokið hafa bakkalárgráðu eða sambærilegu námi í tónlist. Einnig býður tónlistardeild upp á nám í rytmískri og klassískri söng- og hljóðfærakennslu á bakklárstigi

Gráða

Nemendur útskrifast annað hvort með M.Art.Ed., M.Mus.Ed. gráðu eða MA (rannsóknartengd gráða).

Auk almennra réttinda sem meistaragráða veitir til frekara náms og starfa fá nemendur starfsréttindi (leyfisbréf) til almennrar kennslu á grunnskólastigi og geta sótt leyfisbréf til kennslu í hönnun og listgreinum á framhaldsskólastigi.

 • UMSÓKNARFRESTUR

  Meistaranám í listkennslu og aðfararnám í listkennslu: 17. maí 2019.

 • HEIMILISFANG

  LISTKENNSLUDEILD LHÍ

  lhi@lhi.is

  Laugarnesvegur 91

  105 Reykjavík

  545 2240

  Tónlistardeild LHÍ

  Skipholt 31

  105 Reykjavík

  545 2260