Kennaranám eftir námsbrautum
Leikskólakennari
Viltu vinna með ofurhetjum á hverjum degi? Leikskólakennarar skapa vettvang fyrir börn til að blómstra á fyrsta skólastiginu. Ertu að leika þér allan daginn? Já, svo sannarlega! En ertu að vinna krefjandi starf sem hefur jákvæð áhrif á lífsgæði barna og uppvöxt? Svo sannarlega líka! Leikskólakennarastarfið er fyrir konur og karla og allt þar á milli sem dreymir um að skipta máli og móta framtíðina.
Hvernig verð ég leikskólakennari?
Leikskólakennarafræði er fimm ára nám en á lokaárinu geta kennaranemar verið í 50% launuðu starfsnámi. Ný lög um kennaranám fjölga tækifærum kennara til muna því þeir fá eitt leyfisbréf með heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í meistarnámi velja nemendur á milli þess að skrifa rannsóknarritgerð (M.Ed.) eða dýpka sig með námskeiðum í tilteknum viðfangsefnum og útskrifast þá með MT-gráðu.
Ertu með BA eða BS gráðu og langar að verða leikskólakennari?
Ef þú hefur lokið bakkalárprófi í námi sem tengist uppeldisfræði eða námssviðum leikskólans geturðu farið í Menntunarfræði leikskóla. Það er meistaranám og veitir leyfisbréf til að starfa í leikskóla, sem og öðrum skólastigum. BA eða BS gráðan getur verið á sviði sálfræði, í listum, íslensku, heimspeki eða náttúruvísindum, svo dæmi sé nefnd.
Í LHÍ geta meistaranemendur í 60e diplómu í listkennslufræðum, 120e listkennslufræðum eða 120e kennslufræðum sérhæft sig í leikskólakennslufræðum innan sinnar námsleiðar. Námið veitir leyfisbréf til að starfa í leikskóla, sem og öðrum skólastigum.
Grunnskólakennari
Viltu kveikja neista á hverjum degi? Viltu hafa áhrif á komandi kynslóðir og vinna starf sem er aldrei eins frá degi til dags? Á Íslandi eru börn í grunnskóla í heilan áratug og það eru sannkölluð mótunarár. Vilt þú eiga þátt í að skapa öfluga einstaklinga, vinna í teymi á fjörugum vinnustöðum og finna hvern dag að starf þitt skiptir máli? Aflaðu þér upplýsinga um nám í grunnskólakennslu!
Hvernig verð ég grunnskólakennari?
Grunnskólakennaranám er fimm ára nám en á lokaárinu geta kennaranemar verið í 50% launuðu starfsnámi, séu þeir með starf í skóla. Ný lög um kennaranám fjölga tækifærum kennara til muna því þeir fá eitt leyfisbréf með heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í meistaranáminu velja nemendur á milli þess að skrifa rannsóknarritgerð (M.Ed.) eða dýpka sig með námskeiðum í tilteknum viðfangsefnum og útskrifast þá með MT-gráðu.
Ertu með BA eða BS gráðu og langar að kenna í grunnskóla?
Ef þú hefur lokið bakkalárprófi í námi sem tengist kennslugrein í grunnskóla, þá er þetta leiðin fyrir þig. Greinin þín gæti verið á sviði uppeldis- og menntunarfræði, sálfræði eða faggrein sem tengist viðfangsefnum grunnskólans, t.d. í listgrein, sögu, samfélagsfræði, stærðfræði eða náttúruvísindum. Meistaranámið er 120 einingar og veitir ýmist M.Ed., MA, M.Art.Ed eða MT gráðu.
Viltu nota aðferðir lista í kennslu?
Ef þú hefur bakkalárgráðu og vilt nota aðferðir lista í kennslu þá býður LHÍ upp á meistaranám í kennslufræðum.
Framhaldsskólakennari
Viltu vinna með ungu fólki sem er að taka skrefið inn í fullorðinsárin? Í framhaldsskólum er efniviðurinn ungmenni á einu skemmtilegasta tímabili ævinnar. Í framhaldsskóla gefast endalaus tækifæri til að kafa djúpt með nemendum og uppgötva heim tungumála, raungreina, hugvísinda, list- og verkgreina eða annars áhugasviðs þíns. Framhaldsskólanemar eru upplýstir og klárir og spyrja oft erfiðra spurninga, ef þú ert týpan sem elskar það ertu á réttum stað!
Hvernig verð ég framhaldsskólakennari?
Framhaldsskólakennaranám er sérstaklega skipulagt fyrir þá sem hafa þegar lokið bakkalárgráðu og vilja byggja ofan á hana þekkingu í kennslu- og menntunarfræði, oft nefnt kennslufræði faggreinarinnar. Að námi loknu getur þú sótt um leyfisbréf og leyfisbréfið veitir samkvæmt glænýjum lögum um kennaranám heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Ef þú ert með bakkalárgráðu geturðu einnig sótt meistaranám í listkennslu- eða kennslufræðum í listkennsludeild LHÍ.
Ertu meistari í iðngrein?
Það er einnig í boði viðbótardiplóma til kennsluréttinda fyrir þá sem lokið hafa meistaraprófi í iðngrein sem kennd er í framhaldsskólum.
Listgreinakennari
Viltu virkja sköpunarkraftinn í börnum og ungmennum? Viltu byggja ofan á listgrein þína og öðlast hæfni til að miðla henni í kennslu eða viltu fara í fimm ára heildstætt kennaranám með list- og verkgreinar sem kjörsvið? Hvað sem þú kýst – leiðirnar eru margar og ólíkar svo þú finnur örugglega eitthvað við þitt hæfi.
Hvernig verð ég listgreinakennari?
Háskóli Íslands býður upp á fimm ára nám í listgreinakennslu sem lýkur með M.Ed. eða MT gráðu, sem veitir leyfisbréf. Ný lög um kennaranám fjölga tækifærum kennara til muna því þeir fá eitt leyfisbréf með heimild til að kenna í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í meistaranámi geta nemendur valið á milli þess að skrifa rannsóknarritgerð (M.Ed.) eða dýpka sig með námskeiðum í tilteknum viðfangsefnum og útskrifast þá með MT-gráðu.
Ertu komin/kominn/komið með bakkalárgráðu í listgrein?
Þá getur þú farið í Háskóla Íslands eða Listaháskóla Íslands í meistaranám. Listaháskóli Íslands býður upp á diplómanám og meistaranám í listgreinakennslu. Náminu lýkur með MA eða M.Art.Ed gráðu.
Íþróttakennari
Ertu með heilsu, þjálfun og íþróttir á heilanum? Ef þú ert rétta manneskjan til að hvetja börn og ungmenni til að huga að heilsunni, hreyfa sig og efla sál og líkama ættir þú að skoða íþróttakennaranám.
Hvernig verð ég íþróttakennari?
BS-nám í íþrótta- og heilsufræði er fræðilegt, verklegt og starfstengt 180 eininga nám. Þeir sem vilja verða íþróttakennarar geta sótt um meistaranám í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.
M.Ed.-nám eða MT-nám í íþrótta- og heilsufræði (HÍ) og Heilsuþjálfun og kennslu (HR) er ætlað þeim sem stefna að því að starfa við íþróttakennslu. Námið veitir leyfisbréf með heimild til að starfa sem kennari á öllum skólastigum.