Fjölmargir kennarar hafa haft djúpstæð áhrif á fjölda fólks og lifa í minningum þess í gegnum allt lífið.
Hér gefur að líta nokkrar skemmtilegar minningar um slíka kennara.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Forsætisráðherra
„Ég man sérstaklega eftir kennaranum mínum í 3. bekk. Hún var nýkomin úr námi og hafði ótæmandi áhuga á að nýta alls kyns nýjar aðferðir við nám og kennslu. Hjá henni kynntist ég fyrst því sem ég lærði seinna að hét einstaklingsmiðuð námskrá en hún lét okkur gera vikuáætlanir þar sem við áttum að setja okkur einstaklingsbundin markmið í náminu.
Villa (sem heitir Vilhelmína en var ávallt kölluð Villa) lenti hins vegar í mér á einkar leiðinlegum nemanda þar sem áætlunin mín var eins, viku eftir viku, og snerist eingöngu um að reikna fleiri dæmi í stærðfræðibókinni. Hún taldi mig á endanum á að gera eitthvað nýtt og ég man enn eftir orðum hennar um að það væri ekki nóg að gera það sem maður væri góður í, það væri mikilvægt að læra líka eitthvað nýtt. Einmitt vegna þessara orða býð ég mig nánast alltaf fram í ný verkefni svo ég festist nú ekki í reikningsbókinni, eins og gerðist um árið.“
Hjá henni kynntist ég fyrst því sem ég lærði seinna að hét einstaklingsmiðuð námskrá en hún lét okkur gera vikuáætlanir þar sem við áttum að setja okkur einstaklingsbundin markmið í náminu.
Þegar ég síðan steig mín fyrstu skref í íslensku skólakerfi, óörugg og tvístígandi með hvaða orð ætti að nota og hvernig ætti að fara með þau, studdu kennarar mínir mig í því að ná þeirri færni sem ég þurfti til að tjá mig og taka þátt í íslensku samfélagi.
Ragna Sigurðardóttir læknanemi
Læknanemi
„Þegar ég var 15 ára gömul flutti ég til Íslands eftir 9 ára dvöl erlendis. Ég hafði alist að mestu leyti upp í Bandaríkjunum og átti í fyrstu erfitt með að fóta mig í íslensku samfélagi þar sem nýjar reglur giltu um hegðun, félagslíf, klæðaburð og tungumál sem fól í sér alls konar beygingar og undantekningar sem ég hafði litla sem enga þekkingu á.
Amma mín, verandi fyrrum íslenskukennari, skipaði mér að lesa kennslubækur fyrir grunnskólanema í íslensku sumarið áður en ég byrjaði í 10. bekk og setti fyrir mig heimavinnu í aðdraganda skólaársins. Þegar ég síðan steig mín fyrstu skref í íslensku skólakerfi, óörugg og tvístígandi með hvaða orð ætti að nota og hvernig ætti að fara með þau, studdu kennarar mínir mig í því að ná þeirri færni sem ég þurfti til að tjá mig og taka þátt í íslensku samfélagi.
Í grunnskólanum fékk ég sérkennslu í íslensku þar sem mér gafst tækifæri til að spyrja, oft spurninga sem ég taldi heimskulegar, og fá svör og kennslu í næði.
Kennarar gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að hjálpa nemendum að aðlagast nýju samfélagi. Ég er kennurum mínum ævinlega þakklát fyrir að hafa hjálpað mér við það.“
Halla Tómasdóttir frumkvöðull og athafnakona
Frumkvöðull og athafnakona
„Að öðrum kennurum ólöstuðum þá var uppáhaldskennarinn minn í Kársnesskóla án efa hún Þórunn Björnsdóttir, oftast kölluð Tóta kórstjóri. Hún kenndi okkur að lesa nótur og syngja jafnt einföld þjóðlög sem flókin tónverk. Hún kenndi strákunum að haga sér og okkur stelpunum að vera svolítið óþekkar, öll urðum við betri fyrir vikið. Tóta var (og er) þeirrar skoðunar að allir geti lært að syngja og hún vílaði aldrei fyrir sér að ferðast með stóra hópa kórbarna utan lands sem innan og sá þá oft á tíðum sjálf um að elda matinn ofaní okkur “kórbörnin” sín. Tóta sá þannig ekki eingöngu um tónlistarlegt uppeldi okkar, heldur kenndi hún okkur eina mikilvægustu lexíu lífsins; Það er allt hægt með góðu viðhorfi og mikilli seiglu og vinnusemi.
Tóta er ekki síst ástæða þess að ég flutti aftur í mitt heimahverfi þegar mín börn komust á skólaaldur. Þau hafa notið kennslu og „uppeldis” hjá Tótu og eru nú á leiðinni í sitt fyrsta kórferðalag til útlanda með nýjum kórstjóra, sem auðvitað er fyrrverandi „kórbarn” Tótu Björns. Tóta er ekki bara frábær kennari, heldur einnig öflugur leiðtogi, sem hefur getið af sér fjölmarga tónlistarsnillinga og óteljandi tónlistar- og söngelskendur. Kannski er hennar besti vitnisburður að hún hefur getið af sér næsta leiðtoga Skólakórs Kársness, Álfheiði Björgvinsdóttur, sem sýnir og sannar að góðir kennarar og fyrirmyndir skipta sköpum.“
Tóta sá þannig ekki eingöngu um tónlistarlegt uppeldi okkar, heldur kenndi hún okkur eina mikilvægustu lexíu lífsins; Það er allt hægt með góðu viðhorfi og mikilli seiglu og vinnusemi.
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands
Rektor Háskóla Íslands
„Forngrísku spekingarnir sögðu undrunina vera aflvaka þekkingarleitarnnar. Góður kennari kveikir ekki aðeins áhuga nemenda sinna á viðfangsefninu heldur opnar hann jafnframt augu þeirra fyrir undrum tilverunnar.
Kennarastarfið er tvímælalaust eitt það mikilvægasta í samfélaginu. Farsæld komandi kynslóða er undir því komin að kennaranemar fái bestu menntun og þjálfun sem völ er á, að kennarastarfið sé eftirsótt, njóti virðingar og að hlúð sé að starfsvettvangi kennara.
Menntun og starf kennara er ekki fastmótað í eitt skipti fyrir öll heldur tekur sífelldum breytingum og þróast í takt við samfélagið og atvinnulífið. Því er nauðsynlegt að styðja við rannsóknir og nýsköpun á sviði menntunarfræða í víðasta skilningi. Hvernig lærum við? Hvernig á að kenna? Hvað þurfum við að vita, kunna, geta og gera? Hvað áhrif hefur ný tækni og hvernig getum við nýtt hana í skólastarfinu? Í hvernig samfélagi viljum við búa og hvernig eflum við nemendur sem virka, ábyrga og umhyggjusama borgara? Hvernig hvetjum við nemendur til að vinna saman, hugsa út fyrir landamæri einstakra fræðigreina, nýta sköpunarkraft sinn og skilja ólíka menningarheima?
Þessum spurningum verður aldrei svarað fyrir fullt og allt, en það skiptir sköpum fyrir framtíðina að þær brenni á okkur öllum. Kennarar eru þar í lykilhlutverki. Því þurfum við að leggja allt kapp á að efla kennaramenntun og starfsvettvang kennara.“